„Ég er ekkert allt of bjartsýnn“

Flugumferðarstjórar að störfum.
Flugumferðarstjórar að störfum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Það gengur ekkert allt of vel,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í samtali við mbl.is en fundað var í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Isavia í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundurinn hófst klukkan 13:00 í dag og lauk upp úr klukkan 17:00. Sigurjón segir aðspurður fundinn hafa skilað litlum árangri.

Boðað hefur verið til fundar aftur á föstudaginn en semja verður í síðasta lagi þann dag. Að öðrum kosti fer kjaradeilan í gerðardóm samkvæmt lögum sem Alþingi setti á deiluna fyrr í þessum mánuði. „Við sjáum hvort við náum einhverri lendingu þá. Ég er ekkert allt of bjartsýnn en vonandi náum við saman á föstudaginn. Eins og staðan er núna virðist sem þetta gæti farið í gerðardóm.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert