Virðir ekki andmælarétt

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi.
Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef bent á það áður í borgarstjórn að það þurfi að bæta hagsmunaskráningu og skýra reglur sem um hana gilda þar sem þær eru óljósar. Ég gerði grein fyrir þessu á fundi borgarstjórnar í apríl og undir það var tekið af öðrum borgarfulltrúum.“

Þetta segir Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fór hörðum orðum um eign hans í aflandsfélagi í áliti sem samþykkt var fyrir helgi. Eignin var ekki skráð í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa. Eftir að málið komst í hámæli í byrjun apríl sagði Júlíus af sér sem borgarfulltrúi. Siðanefndin fjallar einnig um tengsl Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, við aflandsfélög í áliti sínu en hún er í leyfi frá störfum.

„Siðanefnd hefur valið að fara ákveðna leið þar sem verður ekki betur séð en að henni hafi borið að sinna rannsóknarskyldu og veita andmælarétt. Það gerir hún því miður ekki. Ég held að þar sem hún er að móta sín störf frekar en annað þá ætti hún að hafa þetta hugfast. Ég tel að siðanefndin sé mikilvæg en hún verður að vanda úrlausn þeirra mála sem hún fær til umfjöllunar til þess að hún njóti trausts,“ segir Júlíus.

Ekki hefur náðst í Sveinbjörgu Birnu vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert