„Ekkert sexí við að vera svöng"

Frá útskrift Listaháskóla Íslands, 17. júní 2016.
Frá útskrift Listaháskóla Íslands, 17. júní 2016. /Af Facebooksíðu Listaháskólans

Gréta Kristín Ómarsdóttir vandar stjórnvöldum ekki kveðjurnar í ræðu sem hún flutti við útskriftarathöfn frá Listaháskóla Íslands sem fram fór föstudaginn 17. júní síðastliðinn. Ræðuna flutti Gréta fyrir hönd nemenda af sviðslistadeild og birtir í heild sinni á Facebook.

„Að lifa af síðustu 3 ár – á niðurlægjandi framfærsluláni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna – hefur kennt mér að það er ekkert rómantískt við fátækt. Það er ekkert sjarmerandi við að hafa ekki efni á læknisþjónustu. Það er ekkert sexí við það að vera svöng,” segir í upphafi ræðunnar.

Gréta kveðst hafa fengið góð viðbrögð við ræðunni en hún segir rektor einnig hafa fjallaði um málið í sínu ávarpi, þó með ögn kurteisari hætti.

Brýnt að láta í sér heyra

„Þetta er náttúrulega mjög brýnt mál, það hefur verið rosa mikil þögn frá ráðuneytinu í mörg ár og svikin loforð,” segir Gréta. „Stjórnvöld sem að stæra sig af því að standa vörð um menningu og listir ættu þá að sýna það í verki,” segir hún jafnframt og vonast eftir að efni ræðunnar ná til eyrna stjórnvalda.

Gréta Kristín Ómarsdóttir flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema af sviðsliðstabraut.
Gréta Kristín Ómarsdóttir flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema af sviðsliðstabraut. /Af Facebooksíðu Listaháskólans

Aðspurð hvort hún telji nauðsynlegt að brýna raustina og taka svo sterkt til orða svo boðin komist til skila segir Gréta svo vera. „Annað hefur ekki virkað, fyrirspurnum frá skólanum hefur bara ekki verið svarað. Ég veit að skólayfirvöld hafa setið rosa mikið á sér með að fara með þetta í fjölmiðla, reyna bara að bíða og vera þolinmóð og svo einhvern tíman þá hlýtur sú þolinmæði að þrjóta,” segir Gréta.

Í ræðunni lofar Gréta kennara og starfsfólk skólans og hrósar þeim fyrir vel unnin störf þrátt fyrir óvinunandi aðstæður. Aftur á móti gefur hún Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, og félögum hans í ríkisstjórn tóninn.

„Nú gæti ég notað tækifærið og skammað Illuga Gunnarsson, hans félaga í ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir bilaða forgangsröðun og hræsni. Ég gæti fordæmt hvernig mikilvægar stofnanir eru settar út á gaddinn – nema í tilgerðarlegum ræðum á tyllidögum. Og ég gæti fordæmt hvernig listamenn og námsmenn virðast ekki eiga að fá neitt að éta nema það sem úti frýs,“ segir í ræðunni. Gréta vildi þó frekar eyða orkunni á útskriftardaginn í að gleðjast og þakka, það er „öllum nema Illuga,” en hann megi éta það sem úti frýs.

Háskólarnir lýsa yfir áhyggjum

Listaháskólinn er ekki eini háskólinn sem skortir fjármagn en forsvarsmenn háskólanna á Íslandi hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2017–2021. Þeir segja það fjármagn sem ætlað er háskólunum ekki duga til svo skólarnir geti staðið undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar.

Frétt mbl.is: Segja háskólastarfi stefnt í voða

Frétt mbl.is: Fjárhagsáætlun í hróplegu ósamræmi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert