Rannsaka enn meintan veiðiþjófnað

Frá Hornströndum. Mynd úr safni.
Frá Hornströndum. Mynd úr safni. Sigurður Ægisson

Rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum á meintum veiðiþjófnaði nokkurra manna í Hornvík á Hornströndum á Vestfjörðum fyrr í mánuðinum stendur enn yfir. Ekki er búið að yfirheyra alla sakborninga í málinu.

Hópur karlmanna var staðinn að verki í víkinni. Þar eru þeir sagðir hafa komið sér fyrir í neyðarskýli og stundað ólöglegar veiðar. Starfsmaður ferðaþjónustufyrirtækis kom upp um mennina og sagði hann í samtali við mbl.is að aðkoman hefði verið slæm. Tilkynna þarf  um komu í friðlandið fram til 15. júní en það var ekki gert.

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segir í samtali við mbl.is að lögregla telji að vitnisburðir þeirra vitna sem eru til staðar í málinu séu komnir fram. „Við erum að enn með málið í rannsókn og erum búin að yfirheyra nokkra sakborninga en við höfum ekki yfirheyrt alla enn þá,“ segir Hlynur.

Þessa dagana er lögregla að skoða gögn málsins og fá vitnisburði sem komið hafa fram í málinu ásamt framburði sakborninga sem hafa verið yfirheyrðir. „Það er verið að meta þessi gögn, sem og aðra þætti,“ segir Hlynur.

Hann segir að lögregla telji að nöfn allra sakborninganna liggi fyrir. Ekki liggur fyrir hvenær rannsókn málsins lýkur en Hlynur tekur fram að málið sé litið alvarlegum augum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert