Veiða bleikjur í þröngum hellum

Vísindamenn á vegum Háskólans á Hólum í hellaleiðangri.
Vísindamenn á vegum Háskólans á Hólum í hellaleiðangri. mbl.is/Golli

Háskólinn á Hólum fer fyrir alþjóðlegum rannsóknarhópi sem rannsakar bleikju sem heldur sig í hellum í hrauninu í kringum Mývatn, svokallaða hellableikju eða gjáarlontu.

Verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2013 og fyrr á árinu fékk hópurinn styrk frá Rannís til að halda því áfram næstu þrjú árin. Að sögn umsjónarmanns verkefnisins, dr. Bjarna K. Kristjánssonar, deildarstjóra fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum, eru hellarnir sem um ræðir fjölmargir. Um 50 til 500 fiskar eru í hverjum helli fyrir sig. Hellarnir eru að langmestu leyti aðskildir og í hverjum og einum þeirra er sjálfstæður stofn af bleikju.

„Verkefnið gengur út á að skilja hvernig litlir stofnar hegða sér úti í náttúrunni,“ segir Bjarni en hópurinn hefur einnig rannsakað hornsíli í Mývatni.

Hópurinn hefur aðsetur í Náttúrurannsóknastöðinni við Mývatn. Vísindamenn víða að úr heiminum koma að verkefninu, m.a. frá Sviss, Frakklandi, Kanada, Íran og Bandaríkjunum. Bjarni var staddur í miðstöðinni ásamt tveimur samstarfsmönnum þegar blaðamann og ljósmyndara bar að garði.

Dr. Bjarni K. Kristjánsson í Náttúrurannsóknamiðstöðinni á Mývatni.
Dr. Bjarni K. Kristjánsson í Náttúrurannsóknamiðstöðinni á Mývatni. mbl.is/Golli

Bleikjurnar veiddar í gildrur 

Bleikjurnar eru veiddar í gildrur og með rafmagni og telur Bjarni að náist að fylgja eftir um 80% af fullorðnum fiskum í hverjum helli fyrir sig. Fiskarnir eru ljósmyndaðir, vigtaðir og mældir í bak og fyrir, auk þess sem þeir eru merktir með PIT-rafeindamerkjum.

Hellarnir eru oft þröngir og getur því verið erfitt fyrir vísindamennina að athafna sig við rannsóknirnar. „Þetta er tiltölulega stórt verkefni en mjög skemmtilegt. Þegar maður kom fyrst hingað hélt maður að þetta væri ekkert mál en það er svolítið meira en að segja það að fara inn í þessa hella því hellisopið er oft lítið. Ég er ekki annálaður sem hellakafari en maður lætur sig hafa það,“ segir hann og hlær.

Dr. Árni Einarsson aðstoðar vísindamann upp úr einum af hellunum.
Dr. Árni Einarsson aðstoðar vísindamann upp úr einum af hellunum. mbl.is/Golli

Fastir í ómögulegum aðstæðum

Að sögn Bjarna eru bleikjurnar grindhoraðar og hreyfa sig lítið um þessar mundir vegna þess að mýflugan er rétt að koma upp. Hún er aðalfæðan hjá fiskunum. Þegar hópurinn kemur aftur til Mývatns í ágúst verða fiskarnir orðnir „feitir og pattaralegir“ og því auðveldara að veiða þá.

„Líklegast eru þessir fiskar fastir í ómögulegum aðstæðum. Einhvern tímann fóru fiskar neðanjarðar í gegnum hraunið og tóku að nema land í þessum hellum en svo hafa leiðirnar lokast,“ útskýrir hann. „Stofnarnir eru einangraðir hver frá öðrum erfðafræðilega og þeir eru  mjög ólíkir fiskunum sem eru í vatninu, þrátt fyrir að vera afkomendur þeirra. Þetta er erfðafræðilegur aðskilnaður á skala sem við höfum ekki séð áður.“

Þéttskrifuð minnisbók sem vísindamennirnir nota við rannsóknirnar.
Þéttskrifuð minnisbók sem vísindamennirnir nota við rannsóknirnar. mbl.is/Golli


Þróunarfræðilega merkilegt

Dr. Árni Einarsson, líffræðingur á Mývatni, sem er staddur í sama herbergi bætir við: „Við héldum að þetta væri eitt, stórt stöðuvatn neðanjarðar og svo væri op á hellunum og samgöngur á milli en þau hafa breytt þessum hugmyndum. Það eru kannski þrír til fjórir hellar hlið við hlið sem hafa samband. Þetta er mjög merkilegt þróunarfræðilega. Þeir eru að greinast í margar tegundir á þessum stutta tíma, tvö þúsund árum.“

Ættartré fiskanna 

Næst á dagskrá er að beita erfðafræðiaðferðum til að greina hvaða fiskar eru skyldir. „Við getum búið til ættartré innan hvers hellis og skoðað hvort allir eru að leggja jafnt til og hvort ákveðnir fiskar eiga öll afkvæmin og hvort þetta tengist umhverfinu í hverjum helli fyrir sig,“ greinir Bjarni frá.

Sýni eru send til Kanada til erfðagreiningar og einnig eru tekin umhverfissýni til að greina t.d. hvaða pöddur eru í hellunum. „Það er smá vistkerfi í hverjum helli sem við reynum að mæla. Svo fylgjumst við með hversu stöðugt hitastigið er og hvernig það breytist á milli ára,“ segir Bjarni, áður en hann leggur af stað í næsta hellaleiðangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert