Hlaup hafið í Múlakvísl

Myndin var tekin við Múlakvísl í morgun, miðvikudaginn 22. júní …
Myndin var tekin við Múlakvísl í morgun, miðvikudaginn 22. júní 2016. Áin er heldur vatnsmeiri en hún var fyrir nokkrum dögum. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hlaup er hafið í Múlakvísl við Mýrdalsjökul. Enn sem komið er er það minni háttar og telur Reynir Ragnarsson, sem mælir leiðni í ánni fyrir Veðurstofu Íslands, að það hafi hafist fyrir tveimur dögum.

„Það er smá í hlaup í henni, ég vona að það verði ekki meira. Þetta er sambland af þessum rigningum sem voru um helgina og svo er hlaupvatn í ánni líka. Leiðnin sýnir að hlaupvatnið kemur sjálfsagt úr jarðhitakatli í jöklinum sem hleypur úr núna. Þetta gerist svo sem oft en maður veit ekki hvort það verður eitthvað meira,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.

Spurður segist hann ekki finna mikla brennisteinslykt en þó dálitla. „En maður sér það bæði af litnum og á mælingunum á leiðninni í vatninu að það er hlaupvatn með,“ segir Reynir.

Veðurstofa Íslands er með síritandi leiðnimæli sem sendir reglulega upplýsingar en Reynir, sem býr á svæðinu, mælir svo hægt sé að bera saman niðurstöðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert