Aðstæður fæðandi kvenna verði bættar

Elisabeth Rusdal frá Noregi, fráfarandi formaður Nordens Kvinnoförbund, og Guðrún …
Elisabeth Rusdal frá Noregi, fráfarandi formaður Nordens Kvinnoförbund, og Guðrún Þórðardóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands og nýr formaður Nordens Kvinnoförbund. Ljósmynd/NKF

110 norrænar konur tóku þátt í Norrænu sumarþingi kvenfélaga innan Nordens Kvinnoförbund, NKF,  sem haldið var í Vestmannaeyjum dagana 17.–19. júní sl.
Eyjarnar allar og hafið umhverfis voru vettvangur fundarins en hefðbundin fundastörf og fyrirlestrar fóru fram í AKÓGES-salnum. Á þinginu tók Guðrún Þórðardóttir forseti KÍ við formennsku í Nordens Kvinnoförbund, NKF, til næstu fjögurra ára en að auki sendi þingið frá sér ályktun um lækkandi fæðingartíðni á Norðurlöndunum.

Segir í ályktuninni að lækkandi fæðingartíðni leiði af sér aukið ójafnvægi í aldursdreifingu. Margir þættir spili inn í þessa þróun, s.s. tekjuóöryggi foreldra og fáar fæðingardeildir, sérlega í hinum dreifðari byggðum. 

„Til að sporna við þessari óheillaþróun telur sumarfundur NKF að aðstæður fæðandi kvenna þurfi að bæta og jafnframt að viðhalda gæðum þjónustunnar víða í hinum dreifðari byggðum og þar sem náttúruöflin geta verið óvægin á Norðurlöndunum. Að lifa í sátt við náttúruna snýst m.a. um að viðhalda byggð um land allt.

Það er óásættanlegt að konur þurfi að dvelja langdvölum fjarri heimilum sínum meðan þær bíða fæðingar eða séu sendar milli sjúkrastofnana, þannig að börn þeirra fæðist jafnvel í misjöfnum veðrum úti á þjóðvegum. Slíkt er bæði áhættusamt og óöruggt fyrir konur og ófædd börn þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert