Tókust á um fortíð frambjóðenda

mbl.is/Eggert

Tekist var meðal annars á um það í kappræðum forsetaframbjóðendanna á Stöð 2 í kvöld hvort ræða mætti um fortíð einstakra frambjóðenda eða ekki. Þáttarstjórnendur höfðu á orði að spjótin hefðu helst staðið á Guðna Th. Jóhannessyni sem væri ef til vill ekki óeðlilegt þar sem hann hefði lengi mælst með mest fylgi. Guðni tók undir þetta og sagði að af þeim sökum reyndu aðrir frambjóðendur væntanlega að ná fylgi af honum. Hann hefði ekki kveinkað sér undan því.

Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þessi umræða fór fram í kjölfar þess að þáttarstjórnendur spurðu frambjóðendurna hvort þeir teldu að kosningabaráttan hefði verið drengileg sem þeir tóku almennt undir. Davíð Oddsson sagðist hins vegar sennilega hafa verið í einhverri annarri kosningabaráttu ef spjótin hefði aðallega beinst að Guðna. Fjölmiðlar hefðu þvert á móti tekið á honum eins og hann væri nýkominn af fæðingardeildinni. Ekki hafi mátt rifja upp afstöðu hans til Icesave-samninganna og ummæli tengd þorskastríðunum. Þessara stóru mála í sögu íslensku þjóðarinnar.

Davíð sagði ekki nóg með að Guðni hafi hvatt fólk til þess að styðja fyrsta Icesave-samninginn heldur hafi hann einnig kallað þjóðina fávísan lýð. Hann hefði síðan í kosningabaráttunni hlaupið frá þeim ummælum sínum. Guðni vísaði ummælum Davíðs á bug og sagði þá báða hafa talað um fávísan lýð sem myndlíkingu. Davíð sagði hins vegar að fjölmiðlar hefðu vafalítið brugðist öðruvísi við ef hann hefði látið slík ummæli falla. Þá hefðu þeir verið mættir heim til hans til þess að spyrja hvenær hann ætlaði að hætta við forsetaframboð sitt.

Davíð sagðist ekkert sjá að því þótt hans orð og verk væru rifjuð upp. Hann hefði aldrei hlaupið frá þeim. Halla Tómasdóttir lagði áherslu á að allir frambjóðendurnir ættu sér sögu og hefðu allir verið til fyrir árið bankahrunið 2008. Hún hefði fengið spurningar um sína fortíð og lagt áherslu á að svara þeim og birta á vefsíðu sinni. Andri Snær Magnason sagði ekkert að því að hafa áður staðið í eldlínunni í ákveðnum málum. Sjálfur hefði hann meðal annars látið umhverfismál og jafnréttismál sig varða. Forsetinn þyrfti stundum að vera í þeirri stöðu. 

Spurð um gengið í kosningabaráttunni til þessa sagðist Halla einfaldlega ætla að spila leikinn allt til enda. Síðustu kannanir hafa bent til þess að fylgi hennar hafi aukist mikið að undanförnu. Hvatti hún alla til þess að mæta á kjörstað og nýta atkvæði sitt. Sturla Jónsson sagði að það færi eftir því hvaða skoðanakannanir væru skoðaðar hvernig frambjóðendum gengi. Hann hefði til að mynda skorað hátt í könnunum Útvarps Sögu og Hringbrautar. Fólk veldi einfaldlega þær kannanir sem hentaði því og miðað við þessar kannanir væri hann efstur.

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni sagðist þakklátur fyrir hvert atkvæði. Spurður hvaða skýringu hann hefði á því að fylgi hann hefði farið minnkandi sagði hann alla frambjóðendur byrja á núlli og það væri kannski ekki sanngjarnast að miða við mest fylgi frambjóðenda. Andri sagðist telja að fylgi hans ætti eftir að breytast hratt fram að kosningum. Davíð benti á að hann hefði fyrst verið með 3% í könnunum sem síðan hefði aukist. Hann benti einnig á að samkvæmt könnunum væri aðeins um helmingur kjósenda búinn að taka afstöðu tveimur dögum fyrir kosningar.

Andri Snær Magnason.
Andri Snær Magnason. mbl.is/Golli

Frambjóðendurnir voru að lokum spurðir að því hvað tæki við ef þeir næðu ekki kjöri sem forseti Íslands. Davíð sagðist fara aftur að skrifa í Morgunblaðið. Andri Snær sagðist ekki hafa neina varaáætlun. Spurður hvort hann ætlaði að sækja aftur um listamannalaun svaraði hann aftur á sama hátt. Guðni sagðist ætla að komast á leikinn gegn Englandi á mánudaginn sama hvernig kosningarnar færu. Sturla sagðist ætla að halda áfram að berjast fyrir hagsmunum venjulegs fólks í landinu og Halla sagðist einfaldlega ætla að fara alla leið í kosningunum.

Sturla Jónsson.
Sturla Jónsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert