Utankjörfundarkosning kærð

Utankjörfundarkosning forsetakosninganna fram til 25. maí hefur verið kærð til …
Utankjörfundarkosning forsetakosninganna fram til 25. maí hefur verið kærð til Hæstaréttar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Utankjörfundarkosning í forsetakosningum 2016 hefur verið kærð til Hæstaréttar. Kæran snýr að atkvæðagreiðslunni sem fram fór frá 30. apríl og fram til 25. maí, þegar innanríkisráðuneytið auglýsti hverjir væru í framboði.

Samkvæmt kærunni samræmist kosningin ekki ákvæðum laga um framboð og kjör forseta Íslands, þar sem segir að kjósandi sem greiðir atkvæði utan kjörfundar skuli rita á kjörseðilinn fullt nafn þess frambjóðanda sem hann vill kjósa og sem í kjöri er. Þar sem listi yfir löglega frambjóðendur birtist ekki fyrr en 25. maí voru því engir frambjóðendur komnir löglega fram fyrir þann tíma. Er þess krafist í kærunni að sá hluti utankjörfundarkosningarinnar sem fór fram áður en nöfn frambjóðenda lágu fyrir, verði felldur úr gildi.

Að sögn Bjarna V. Bergmanns, eins kærenda, er nú beðið eftir úrskurði frá Hæstarétti. Hann tekur fram að ekki sé verið að kæra alla utankjörfundaratkvæðagreiðsluna, heldur einungis þá sem fram fór áður en innanríkisráðuneytið auglýsti löglega frambjóðendur.

Bjarni segir það hvergi annars staðar þekkjast að ekki liggi fyrir hverjir séu í framboði þegar kosning hefst og að frambjóðendur hafi ekki haft kost á því að vera löglega í framboði, þar sem innanríkisráðuneytið tók ekki við undirskriftum þeirra sem ætluðu sér að skila þeim snemma inn.

Ekki náðist í Hæstarétt við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert