Fólk á ekki að óttast að opna hjarta sitt fyrir ástinni

Wioleta Ludwig er kvenna kátust og hlakkar til að takast …
Wioleta Ludwig er kvenna kátust og hlakkar til að takast á við nýtt verkefni um sterkar konur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir sumt fólk ganga í gegnum umbreytingu þegar líkami þess hefur verið málaður, það losni við hömlur og fyllist frelsistilfinningu. Wioleta er förðunarfræðingur sem leitar að konum til að vera módel fyrir sig í verkefni sem hún vinnur út frá krafti kvenna. Hún ætlar að kalla fram gyðjur og nornir meðal íslenskra kvenna.

Ég er fædd og uppalin í bæ í nágrenni við fangabúðirnar í Auschwitz, svo nálægðin við safnið, sögu þess og dauðann var mikil í minni bernsku. Auðvitað er fólkið sem býr á þessu svæði meðvitað um að þetta er staður sem geymir hræðilega sögu, og við erum alin upp við að sýna virðingu,“ segir Wioleta Ludwig, ung pólsk kona sem hefur búið á Íslandi undanfarin fimm ár. Wioleta kom ásamt kærasta til Íslands skömmu eftir að hún hafði lokið tveggja ára námi í snyrtifræði heima í Póllandi.

„Okkur langaði að freista gæfunnar og flytja til annars lands, víkka sjóndeildarhringinn. Vinkona mín bjó á Íslandi og fjölskylda hennar útvegaði okkur vinnu hér. Kærastinn minn var ljósmyndari og ég batt miklar vonir við að við tvö gætum skapað eitthvert fallegt verkefni saman, hann sem ljósmyndari og ég sem förðunarfræðingur. En allur okkar tími fór í að vinna fyrir okkur, ég vann á hótelum fyrst eftir að ég kom og líka við þrif. Ég gerði ekkert annað en strita og fara heim og hvíla mig. Þetta fór ekki vel með mig, ég varð þunglynd og ástríðan hvarf. Við kærastinn hættum saman en ég náði mér hægt og rólega á strik, og nú geri ég það sem hugur minn stendur til, sem er líkamsmálun og förðun.“

Einskonar sálræn þerapía

Wioleta segist hafa teiknað og málað alla tíð frá því hún var krakki.

„Með líkamsmálun er ég að sameina ástríðu mína fyrir því að teikna og kunnáttu mína í förðun. Ég skapa listaverk á líkama. Ég hafði sjálf verið módel heima í Póllandi hjá konu sem var „body painter,“ og við unnum til þónokkurra verðlauna. Mér fannst alltaf gaman að taka þátt í þessu og ákvað að taka næsta skref, að mála sjálf á líkama. Ég hef áhuga á fólki, finnst gaman að kynnast því og ég elska húðina, og listina. Auk þess hefur þetta allt saman dýpri merkingu, af því fólk fer í raun í gegnum umbreytingu þegar líkami þess er málaður, það upplifir sig jafnvel sem aðra manneskju. Það er mjög fallegt að sjá hvernig sumir fara inn í þetta ferli. Ég tók eftir því hjá vini mínum sem ég málaði nýlega að ég losaði með því úr læðingi djöflana sem búa innra með honum, og þá á ég ekki við ill öfl, heldur losaði hann sig við allskonar höft og bælingu. Líkamsmálun getur í raun verið einskonar sálræn þerapía, í það minnst mjög frelsandi. Flestir hafa gengið í gegnum hin ýmsu trámu og erfiðleika í lífinu og við erum heft í hversdagslífinu, við hegðum okkur eins og til er ætlast af okkur, gerum ekkert sem við teljum ekki við hæfi. Samfélagið setur okkur inn í ákveðinn ramma, sem við erum hrædd við að brjótast út úr. En með því að bregða okkur í annað hlutverk, með því til dæmis að láta mála líkamann okkar, þá getum við losað um þennan ótta sem hamlar okkur. Við eigum að vera óhrædd við að opna hjörtu okkar fyrir ástinni,“ segir Wiioleta sem fann þessa frelsandi tilfinningu sjálf þegar hún var módel hjá líkamsmálaranum.

„Ég er alin upp á strang-kaþólsku heimili og því var ég mjög feimin og full af skömm. Það verður til þess að maður hefur ekki trú á sjálfum sér og þorir ekki að gera neitt af ótta við álit annarra. En maður losnar við þessar neikvæðu tilfinningar þegar maður klæðist litum sem eru málaðir á líkamann.“

Konur hafa vaknað og eru aftur orðnar gyðjur

Wioleta er núna að vinna að verkefni sem hún kallar norna- og gyðjuverkefni.

„Mig langar svo að vinna með þetta fallega sem felst í krafti kvenna. Á miðöldum sá fólk hið illa í konum ef það skynjaði kyntöfra frá þeim og þá voru þær álitnar nornir. Konum var bannað að vera kynverur, fólk óttaðist kraft þeirra. En núna er þessi ótti horfinn, konur hafa vaknað upp og þær eru meðvitaðar um mátt hins kvenlega. Við erum allar kraftmiklar fallegar nornir þegar við eldum, dönsum, ölum upp börn og gerum allt sem konur gera. Konur eru aftur orðnar gyðjur, í tengslum við eðli sitt, og þær njóta þess. Þess vegna langar mig að vinna þetta verkefni. Ég hlakka til og er stolt af þessu.“

Wioleta tekur sjálf myndir af verkum sínum og hún ætlar að senda nornamyndirnar í ljósmyndasamkeppnir hjá alþjóðlegum tímaritum. Í haust ætlar hún að flytja til Hollands þar sem vinkona hennar býr.

„Ég elska Ísland og hef verið í ágætri vinnu í sundlaug Garðabæjar undanfarin tvö ár, en ég þrái að búa þar sem ég er umvafin trjám, gróðri og sól. Ég þarf á þessari tengingu að halda, ég vil geta gengið út í skóg. Og ég þrái að rækta matjurtir í eigin garði, hér er það ekki hægt nema í örfáa mánuði á ári,“ segir hún og hlær.

Vantar gyðju- og nornamódel

Wioleta leitar að módelum fyrir verkefni sitt um nornir og gyðjur, um mátt kvenna. Hún leitar að konum með náttúrulega fegurð, á öllum aldri en þó eldri en 21 árs. Helst síðhærðar en einnig alveg krúnurakaðar eða sköllóttar, gjarnan rauðhærðar. Áhugasamar geta sent henni skilaboð á netfangið: ludwig.wioleta@gmail.com eða með því að senda skilaboð á Facebook: Wioleta Ludwig
Dularfull. Wioleta breytti Bryndísi Líf í dularfulla ævintýraveru.
Dularfull. Wioleta breytti Bryndísi Líf í dularfulla ævintýraveru. Ljósmynd/Simone Del Popolo
Augnaráð. Wioleta gerði Paulina Serio dimma til augna.
Augnaráð. Wioleta gerði Paulina Serio dimma til augna. Ljósmynd/Simone Del Popolo
Fugl. Wioleta gantaðist með það við vin sinn Phil Widiger …
Fugl. Wioleta gantaðist með það við vin sinn Phil Widiger Jónsson, að hún hefði leyst djöfla hans úr fjötrum. Ljósmynd/Wioleta Ludwig
Fugl. Wioleta gantaðist með það við vin sinn Phil Widiger …
Fugl. Wioleta gantaðist með það við vin sinn Phil Widiger Jónsson, að hún hefði leyst djöfla hans úr fjötrum, eins og sjá má á öskrinu. Ljósmynd/Wioleta Ludwig
Í vinnunni. Wioleta að störfum við förðun á Free the …
Í vinnunni. Wioleta að störfum við förðun á Free the Nipple á Húrra. Ljósmynd/Aníta Eldjárn
Tásur. Litríkar og ómálaðar saman.
Tásur. Litríkar og ómálaðar saman.
Wioleta að störfum við förðun.
Wioleta að störfum við förðun.
Litríkar tásur.
Litríkar tásur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert