Á fæðingardeild í landsliðstreyju

Öll fjölskyldan.
Öll fjölskyldan. Mynd/Aðsend

Þegar þjóðin var að undirbúa sig fyrir leik Íslendinga og Austurríkismanna í fyrradag voru þau Daði Freyr Guðmundsson og Elsa Alexandra Serrenho stödd uppi á fæðingardeild. Um 20 mínútum áður en leikurinn hófst kom svo heilbrigt stúlkubarn í heiminn. mbl.is ræddi við Daða Frey um upplifunina á þessum sögulega degi.

„Ég byrjaði daginn á að klæða mig í landsliðstreyjuna og var tilbúinn í leikinn. En síðan fór konan af stað og þá var ekkert í því að gera,“ segir Daði en Elsa voru komin upp á fæðingardeild skömmu fyrir klukkan 11 í gær.

Daði Freyr í landsliðstreyjunni ásamt nýfæddri dóttur sinni.
Daði Freyr í landsliðstreyjunni ásamt nýfæddri dóttur sinni. Mynd/Aðsend

„Það gengur auðvitað fyrir að eignast barn og maður varð bara að einbeita sér að því. Ég tók samt alveg eftir því að það var stemning fyrir leiknum á fæðingardeildinni, ljósmæðurnar voru spenntar. Þær sáu líka að ég var mættur í landsliðstreyjunni.“

Var þetta annað barn þeirra Elsu en fyrir eiga þau dótturina Köru Lilju sem var á leikskólanum meðan á fæðingunni stóð. Þar var líka mikil stemning fyrir leiknum og krakkarnir með andlitsmálningu.

Þorði ekki að kveikja á sjónvarpinu strax

Daði segir að sjónvarp hafi verið í herberginu en ekki hafi verið kveikt á því fyrst um sinn. 

„Hún átti barnið skömmu fyrir leikinn. Þegar ró var komin á herbergið og við vorum með það í fanginu leit ég á klukkuna. Ég var auðvitað himinlifandi með að barnið væri komið í heiminn en var líka að hugsa um leikinn. Ég fór þá varlega í að spyrja konuna hvort ég mætti kveikja á sjónvarpinu og lækka hljóðið. Hún var ekkert allt of sátt með það. Það var eiginlega slegið út af borðinu þarna strax. En svo fékk ég leyfi til að kveikja þegar lítið var búið af seinni hálfleik. Þá lágum við öll fjölskyldan uppi í rúmi og skiptumst á að horfa á barnið og leikinn,“ segir Daði.

Mæðgurnar Elsa Alexandra, Kara Lilja og sú nýfædda.
Mæðgurnar Elsa Alexandra, Kara Lilja og sú nýfædda. Mynd/Aðsend

„Það er ólýsanleg tilfinning að eignast barn. Svo hefur maður fylgst með hverjum einasta leik sem landsliðið hefur spilað frá því að ég var barn. Þegar seinasta markið kom mátti ég auðvitað ekki öskra. Vanalega öskra ég þegar við skorum en þarna stóð ég bara upp, rétti upp hendurnar og hélt í mér öskrinu. En það heyrðust öskur um allan spítalann og út á götu. Þetta var fáránlega skemmtilegur dagur,“ segir Daði, sem upphaflega ætlaði út til Frakklands til að fylgjast með landsliðinu.

„Fljótlega eftir að við komumst á EM fór ég að peppa vinahópinn til að fara út, og var farinn að skoða hús í Frakklandi. En svo kom konan til mín og sagðist vera með eina góða frétt og eina slæma frétt. Ég bað um slæmu fréttina fyrst, og hún sagði að ég væri ekki að fara á EM. En góða fréttin var auðvitað að ég var að fara að eignast annað barn. Það voru blendnar tilfinningar en auðvitað var ég í skýjunum yfir því að eignast annað barn,“ segir Daði léttur í bragði.

Mikið grínast með „Hannesínu Arnóru“

Mikil umræða hefur verið á samfélagsmiðlum þar sem fólk segist ætla að nefna börn sín eftir landsliðsmönnum. Daði segir mikið hafa verið grínast með það, jafnvel þótt hann hafi eignast dóttur.

„Ég gerði einmitt grín að því að það væri verið að leggja niður mannanafnanefnd og því allt leyfilegt. Það komu upp hugmyndir um Hannesínu Arnóru Daðadóttur. En við erum nú nokkurn veginn búin að ákveða nafn, og það tengist EM ekki neitt,“ segir Daði.

Daði hefur lengi fylgst með íslenska landsliðinu í knattspyrnu og raunar hefur hann sjálfur keppt fyrir Íslands hönd á heims- og Evrópumeistaramóti en hann er landsliðsmaður og Íslandsmeistari í borðtennis. 

„Svo æfði ég fótbolta með Val þegar ég var yngri. Þá spilaði ég með Ara Frey Skúlasyni. Það er því gaman að sjá hann núna á stórmóti og þjóðarstoltið er mikið. Svo skemmir ekki fyrir að við lentum saman í öðru sæti á Shell-mótinu árið 1996. Maður hefði nú getað farið fótboltaleiðina, en valdi borðtennisinn frekar á sínum tíma,“ segir Daði glaðbeittur.

Þessi mynd var tekin eftir úrslitaleik Shell-mótsins árið 1996. Efst …
Þessi mynd var tekin eftir úrslitaleik Shell-mótsins árið 1996. Efst til vinstri má sjá Ragnar Sigurðsson í Fylkistreyjunni. Númer tvö frá hægri í neðri röð, með keðju um hálsinn, má sjá Daða Frey og númer fimm frá hægri í neðri röð má sjá liðsfélaga Daða, Ara Frey Skúlason. Skjáskot/Dagblaðið Vísir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert