Áfall fyrir alla heimsbyggðina

Benedikt Jóhannesson er formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson er formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að þetta sé áfall fyrir Evrópu alla og reyndar heimsbyggðina, þar með talið Ísland,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is, spurður um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um að yfirgefa Evrópusambandið.

Hann bendir á að Bretland og Ísland eigi í mikilvægu viðskiptasambandi og erfitt sé að meta hvað gerist í framhaldinu. „En eitt sem gæti haft áhrif er lækkun pundsins, ef það er varanlegt gæti farið að fækka ferðamönnum frá Bretlandi.“

Spurður hvort niðurstaðan hafi komið honum á óvart segir Benedikt að hann hafi vitað að atkvæðagreiðslan gæti farið á hvorn veginn sem var.

„En maður sér það núna í bresku miðlunum að menn séu nokkuð slegnir að þetta sé að verða raunveruleiki. Meira að segja Boris Johnson sagði í dag að það liggi ekkert á að klára þetta, maður myndi halda að það væri frekar öfugt hjá honum.“

Benedikt segir erfitt að meta framhaldið. „Nú þurfa Bretar að fara í samningaviðræður, bæði við Evrópusambandið og svo þarf að sjá hvað Skotarnir vilja gera. Þetta getur auðvitað haft þau áhrif að Bretland sjálft liðist í sundur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert