Bátur sökk í Ólafsfjarðarhöfn

Strandveiðibátur sökk í Ólafsfjarðarhöfn í nótt.
Strandveiðibátur sökk í Ólafsfjarðarhöfn í nótt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Strandveiðibátur sökk í Ólafsfjarðarnótt í nótt. Að sögn Þorbjarnar Sigurðssonar, yfirhafnarvarðar í Fjallabyggðarhöfnum, kom báturinn úr róðri um áttaleytið í gærkvöldi og til stóð að landa úr honum nú í morgun.

„Það voru rúm 600 kg af fiski í bátinum,“ segir Þorbjörn. Báturinn, sem er sex tonna trilla, sökk einhvern tímann bilinu miðnætti til fjögur í nótt, en það var sjómaður sem var á leið út rúmlega fjögur í nótt sem uppgötvaði að bátur hafði sokkið í höfninni og hafði hann samband við lögreglu.

Báturinn liggur nú á botni hafnarinnar og segir Þorbjörn ómögulegt að segja til um hvers vegna hann hafi sokkið. Beðið er eftir starfsmönnum tryggingafélags bátsins, sem væntanlegir eru á vettvang nú fyrir hádegi, en ekki verður reynt að ná bátnum upp fyrr en búið er að skoða hann. 

„Við náðum upp 220 kg af fiski sem var á reki í keri í hafinu,“ segir Þorbjörn og kveður væntanlega mikið tjón á tækjum og veljum þó engar skemmdir séu sýnilegar á skrokki bátsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert