Brexit mun hafa áhrif hér

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Eggert

„Þeir atburðir og svo það sem við horfum upp á í Evrópu núna undirstrikar mikilvægi þess að á Bessastöðum sitji forseti með yfirsýn og reynslu og þekkingu sem gerir viðkomandi kleift að takast á við óvæntar aðstæður sem upp geta komið,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður og formaður þingmannanefndar EFTA, fríverslunarsamtaka Evrópu, sem telur að niðurstaða kosninganna muni hafa áhrif á stjórnmálin hér á landi.

Guðlaugur Þór segist vonast til að þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi muni vekja forystumenn Evrópusambandsins upp af værum blundi. Útganga Breta sé mikið högg fyrir ESB, meðal annars vegna þess að þeir séu í hópi þeirra ríkja sem greiði mikið með sér inn í sambandið. Ákvörðunin muni því hafa gríðarleg áhrif á fjárhag ESB. Hann segir að niðurstaða kosninganna í nótt hafi komið sér á óvart en hann er hins vegar vongóður um að niðurstaðan muni leiða til aukinnar fríverslunar í heiminum á komandi árum og að það muni koma sér afar vel fyrir íslenska hagsmuni.

„Það var auðvitað orðið ljóst að það yrði mjótt á mununum en hræðsluáróðurinn gegn útgöngu Bretlands var mjög mikill, ekki síst síðustu dagana. Niðurstaðan staðfestir hins vegar það sem við vitum um, að það er gríðarleg óánægja með Evrópusambandið. Sú skoðun hefur verið útbreidd um langt skeið hjá almenningi víða í Evrópu. Í grunninn er vandinn sá að forystumenn Evrópusambandsins hafa á síðustu árum og áratugum sýnt af sér mikinn hroka og ekki hlustað á þá sem hafa talað gegn frekari pólitískum samruna.“

Leggur fram tillögu um að Bretum verði boðið í EFTA

Hann segir að Íslendingar eigi að taka af skarið og efna til viðræðna við Breta um fríverslun milli ríkjanna.

„Utanríkisráðherra hefur nú þegar lýst því yfir að Ísland muni efna til viðræðna við Bretland um viðskiptasamband þjóðanna tveggja. Það er mikilvægt að það verði gert sem fyrst. Á mánudaginn mun þingmannanefnd EFTA funda. Ég hafði fyrir nokkru síðan sett málefni Bretlands og Evrópusambandsins á dagskrá fundarins. Ég gerði mér grein fyrir því að það þyrfti að ræða þessi mál á hvorn veginn sem atkvæðagreiðslan færi. Fyrst þetta varð niðurstaðan mun ég leggja á það áherslu að þau skilaboð verði send að Bretar séu velkomnir að nýju í EFTA. Það væri styrkur bæði fyrir Breta og einnig EFTA. Það er augljóst að þeir þurfa að ganga mjög hart fram í að tryggja frekari fríverslun. Í því munu felast tækifæri fyrir okkur Íslendinga ekki síst. Við verðum að minnast þess að það er tiltölulega stutt síðan við vorum fátækt land og við værum það enn ef við hefðum ekki aðgang að öðrum mörkuðum og með okkar eigin markað opinn.“

Mikil undirliggjandi óánægja

Guðlaugur segir að óánægjan sem leitt hafi til niðurstöðunnar í kosningunum í gær snúi ekki síst að þeirri staðreynd að embættismenn, sem eru fjarri almenningi og sækja ekki umboð sitt til hans í kosningum, taki mikilvægar ákvarðanir sem hafi áhrif á líf fólks.

„Enginn getur kosið þessa einstaklinga til starfa, né heldur kosið þá út. Þá er einnig mikil óánægja með það, og það kom vel fram í kosningabaráttunni, hvernig elíta stjórnmála- og embættismanna hefur hreiðrað um sig í Brussel þar sem hún býr við ofurlaun og gríðarleg fríðindi og hefur jafnvel samið í kringum sig og sína stöðu sérstakar skattareglur.

Það er til dæmis mjög kaldhæðnislegt við framkvæmdastjórn ESB, sem er ein allra valdamesta stofnunin, að þar er enginn maður kosinn til verka. Eins og bent hefur verið á í umræðunni á síðustu vikum þá er þar margt fólk sem beinlínis hefur verið kosið út úr valdastöðum í sínum heimaríkjum. Í kjölfarið fá þessir sömu aðilar miklu valdameiri embætti en þeir í raun voru að sækjast eftir að gegna í upphafi. Það á til dæmis við um Neil Kinnock og Peter Mandelson, svo breskir stjórnmálamenn séu nefndir. Svo þegar maður varpar þessum staðreyndum fram þá virkar það ótrúlegt en þetta er einfaldlega staðreynd mála.“

Guðlaugur segir hins vegar að óánægjan snúi ekki aðeins að bákninu sem slíku heldur einnig því sem það hefur leitt af sér.

„Tiltrúin á sambandið hefur minnkað. Samkeppnishæfni ESB-ríkjanna hefur versnað og fólk finnur fyrir því á eigin skinni. Það rekur fólk ekki síst til þeirrar miðstýringaráráttu sem hefur búið um sig í sambandinu. Hin mikla áhersla á lög og reglugerðir um allt og ekkert kemur sérstaklega illa við lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrir því finnur fólk.

Ég hef verið í miklum samskiptum við fjölda aðila innan ESB á síðustu áratugum og þar er mikill skortur á gagnrýninni hugsun. Það er bara ein lína sem menn fylgja og menn einfaldlega vilja ekki ræða augljósa veikleika sem eru á kerfinu og þá óánægju sem til staðar er. Það er mikilvægt að halda því til haga að óánægjan í garð ESB er ekki nýtilkomin. Menn tengja óánægjuna að miklu leyti við flóttamannavandann en það er einfaldlega ekki rétt að þessi staða sé komin upp einvörðungu vegna hans.

David Cameron hefði aldrei unnið þingkosningarnar í fyrra nema vegna þess að hann lofaði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB. Hann lofaði einnig að endursemja um veru landsins í sambandinu. Það gekk hins vegar ekki eftir. Það hafa staðið langvarandi deilur í Bretlandi um þessi mál og í raun allt frá því að landið gekk inn 1973. Þeim var seld sú hugmynd að þarna væri verið að byggja upp sameiginlegan markað. Þeir fórnuðu miklum hagsmunum þegar þeir gengu inn, meðal annars fríverslunarsamningum við önnur þau ríki sem þeir áttu í viðskiptum við á þeim tíma.“

Bretar munu stuðla að meiri fríverslun

„Hin nýja staða kallar á óvissu, eðli málsins samkvæmt. Það hefði reyndar einnig haft óvissu í för með sér með því að Bretland hefði áfram verið inni vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ESB, vanda Grikklands og ýmissa annarra ríkja, eftirstöðva fjármálahrunsins og svo flóttamannavandans. Í þessu felast hins vegar tækifæri fyrir Breta því þeir geta nú samið sína eigin viðskiptasamninga,“ segir Guðlaugur.

Hann bendir á að Bretar hafi verið í miklum viðskiptasamböndum við ríki breska samveldisins. Þegar þeir gengu í ESB hafi þeir ekki talið mikla framtíð í þeim samböndum en annað hafi sannarlega komið á daginn. „Í dag er ESB aðeins með fríverslunarsamning við eitt samveldisríkið, Suður-Afríku. Hins vegar eru fríverslunarsamningar við Ástralíu og Kanada stopp vegna andstöðu tveggja ríkja við Miðjarðarhafið. Þar eru augljós tækifæri fyrir Breta nú sem ég geri ráð fyrir að þeir muni nýta sér,“ segir Guðlaugur.

„Bretar munu áfram leggja áherslu á að ýta undir fjórfrelsið í Evrópu. Það er ekki bara mikilvægt fyrir Bretland heldur má færa fyrir því rök að það sé mikilvægara fyrir ESB-ríkin því þau flytja meira af vörum til Bretlands en Bretland til ríkja Evrópusambandsins. Ef vel tekst til þá mun þetta ýta undir fríverslun í heiminum. ESB er mjög verndarsinnað í eðli sínu og hefur ekki haft forgöngu á sviði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar varðandi fríverslunarlotur. Þótt sambandið beri ekki eitt ábyrgð á því þá hefði munað miklu ef það hefði lagst á sveif með aukinni fríverslun í heiminum. Það mun þegar upp er staðið koma sér mjög vel fyrir ESB því þar hefur verið stöðnun og það setið eftir. Það er hagur okkar allra að það komist í gang aftur. En það mun ekki gerast fyrr en menn horfast í augu við veruleikann eins og hann er og hann kallar á róttækar breytingar á vettvangi ESB og uppstokkun.“

Þurfum forseta með yfirgripsmikla reynslu

Guðlaugur segir að niðurstaða kosninganna muni hafa áhrif á stjórnmálin hér á landi. Nú sé mikilvægt að Íslendingar haldi vel á spilunum enda hafi sviptingar af þessu tagi áhrif á stöðu landsins í samskiptum við aðrar þjóðir.

„Það er augljóst af þessu máli, og við ættum að hafa lært það af atburðum síðustu ára, að það er ekkert öruggt í þessum heimi og það verða miklar sviptingar í samskiptum þjóða. Það er ekki auðvelt að sjá slíkt fyrir. Það þarf að halda af festu á hagsmunum Íslands, líkt og reyndin varð í Icesave þegar Ólafur Ragnar tók af skarið. Hann hefur breytt embættinu með því að virkja hinn svokallaða öryggisventil, sem svo er stundum nefndur. Þeir atburðir og svo það sem við horfum upp á í Evrópu núna undirstrikar mikilvægi þess að á Bessastöðum sitji forseti með yfirsýn og reynslu og þekkingu sem gerir viðkomandi kleift að takast á við óvæntar aðstæður sem upp geta komið. Mér finnst það raunar liggja í augum uppi.“

Ekki álitlegur kostur að sækja um aðild

Þó að forsetakosningarnar standi fyrir dyrum er ekki ólíklegt að flestir alþingismenn séu ekki síður með hugann við fyrirhugaðar þingkosningar í haust. Spurður út í það hvort þjóðaratkvæðagreiðslan í Bretlandi muni hafa áhrif á kosningarnar segir Guðlaugur að mikilvægast sé að ræða efnislega og af yfirvegun um alþjóðamál.

„Evrópusambandið verður ekki vænlegri kostur eftir útgöngu Breta. Svo mikið er víst. Það er hins vegar mjög mikilvægt að ræða alþjóðamál og það er mjög mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað felst í aðild að Evrópusambandinu. Því miður finnst mér fjölmiðlar og þeir sem titla sig sem Evrópusérfræðinga ekki hafa staðið sig nægilega vel í að útskýra hvað felst í aðild að ESB. Mér finnst þessir aðilar því miður hafa gert meira af því að reyna að koma Íslandi í ESB.

Ég hef alltaf kallað eftir því að við ræðum ESB út frá staðreyndum. Kosturinn fyrir okkur Íslendinga, þar sem við erum flest hver vel læs á enska tungu, er að í baráttunni í Bretlandi hafa komið fram mjög mikilvægar upplýsingar sem við getum nálgast og kynnt okkur. Það hefur komið fólki sem ég hef rætt við að undanförnu mjög á óvart hversu mikið hið lýðræðislega aðhaldsleysi er í ESB og einnig hversu mikið bruðlið og sóunin er í Brussel. Þetta eru hlutir sem fólk innan ESB er hins vegar miklu meðvitaðra um en hefur ekki verið nægilega mikið í umræðunni hér á landi.

Það hefur verið yfirlýst markmið alþjóðasamstarfs og einnig innan ESB að stuðla að friði í heiminum. Ég held að það sé útilokað að ESB geti stuðlað að trausti og friði. ESB verður að skipta um kúrsa, annars getur markmiðið snúist upp í andhverfu sína. Opnir markaðir og fríverslun á að vera fyrir almenning og til hagsbóta fyrir hann en það á ekki að byggja upp kerfi fyrir einhverjar elítur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert