Fimm ára fangelsi fyrir manndrápstilraun

Stúdentag­arðarn­ir þar sem árás­in átti sér stað fyr­ir utan
Stúdentag­arðarn­ir þar sem árás­in átti sér stað fyr­ir utan mbl.is/Styrmir Kári

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Rúnar Þór Jóhannsson, 26 ára karlmann, í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann stakk annan karlmann á þrítugsaldri með hnífi hægra megin í bakið, í lifrina, fyrir utan Stúdentagarðana við Sæmundargötu aðfaranótt sunnudagsins 6. mars síðastliðins.

Frá refsingunni dregst 109 daga gæsluvarðhaldsvist.

Rúnar Þór játaði sök, en í dóminum segir að játningin fái stoð í læknisfræðilegum gögnum og framburði vitna í málinu.

Var hann jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola 2.274.303 krónur, auk vaxta, í skaðabætur.

Hefur hann ekki áður sætt refsingu.

Í vottorði og vitnisburði Helga Kjartans Sigurðssonar skurðlæknis kom fram að hnífslagið hefði gengið inn í brjósthol brotaþola, niður í kviðarhol og inn í lifur, og hefði áverkinn verið í það minnsta 12,5 cm djúpur. Hefði brotaþoli verið í bráðri lífshættu vegna stunguáverkans og taldi vitnið að skipt hefði sköpum að skurðteymi var statt á sjúkrahúsinu við komu hans þangað.

Samkvæmt framangreindu verði að telja að hending hafi ráðið því að ekki fór verr. Gat árásarmanninum ekki dulist að langlíklegast væri að brotaþoli hlyti bana af atlögunni.

„Verður ákærði sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og varðar brot hans við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningaralaga,“ segir í dómnum.

Til ósættis kom á milli Rúnars Þórs og brotaþola þetta kvöld, sem lyktaði með því að Rúnar Þór vísaði brotaþola á dyr.

Samkvæmt vitnisburði félaga ákærða, sem hann ræddi við í síma nokkrum mínútum áður en hann yfirgaf íbúðina, hafði hann á orði að hann vildi drepa brotaþola.

Ákærði hafði með sér hníf þegar hann fór út og hefur hann gefið þá skýringu á því að hann hafi óttast að verða fyrir árás frá brotaþola. Sýnir þetta hugarástand ákærða, en af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi verið mjög ölvaður og í uppnámi á þessu tímamarki.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Gögn um símanotkun bera með sér að aðeins u.þ.b. 10 mínútur hafi liðið frá því ákærði yfirgaf íbúðina þar til atlagan varð. Ákærði hefur borið að brotaþoli hafi veist að honum á malarplani framan við húsið og veitt honum högg í andlitið með hnefa og höfði og fær sá framburður stoð í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem liggur fyrir í málinu, og framburði vitna um orðaskipti þeirra, sem rakið hefur verið. Jafnvel þótt lagt verði til grundvallar að brotaþoli hafi veist að ákærða að fyrra bragði eins og hann hefur lýst var atlaga hans gegn brotaþola ekki í neinu samræmi við þá háttsemi.

Með vísan til alls framangreinds þykja ekki efni til að ákvarða refsingu með hliðsjón af 2. mgr. 20. gr., 4. tölul. 1. mgr. 74. gr. eða 75. gr. almennra hegningarlaga,“ segir jafnframt í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert