Fær ekki bætur vegna vínflaskna

mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af skaðabótakröfu karlmanns sem fór fram á eina milljón króna vegna haldlagningar lögreglu á tveimur vínflöskum í eigu hans. Óeinkennisklæddir lögreglumenn höfðu afskipti af manninum í febrúar 2013 þar sem hann kom niður brunastiga skemmtistaðar í miðbæ Reykjavíkur ásamt tveimur félögum sínum. Annar félaga mannsins var með tvær vínflöskur sem maðurinn sagði í sinni eigu.

Lögreglumennirnir höfðu afskipti af manninum þar sem grunur lék á að hann væri að bera áfengi út af skemmtistaðnum í andstöðu við áfengislög. „Lögregla lagði hald á flöskurnar. Er óumdeilt að flöskurnar voru í eigu stefnanda og að þær hafi hann fengið að gjöf í tilefni afmælis hans sem hann fagnaði á veitingastaðnum umrætt kvöld. Engin handtaka fór fram og stefnandi fékk áfengisflöskurnar afhentar rúmum tveimur mánuðum síðar eða þann 20. mars 2013,“ segir í dómi héraðsdóms.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir miska vegna málsins þótt fallist væri á að hann hefði orðið fyrir ónæði vegna þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert