Fullt af fólki að bíða eftir rúmi

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Maður vill ekki hugsa þá hugsun til enda hvað gerst hefði ef Landspítali hefði ekki gripið til aðgerða í vor til að taka á fráflæðisvanda - og vil ég þá sérstaklega nefna útskriftardeildina á Landakoti; ómissandi áfanga á leið margra heim aftur og deild sem verður að tryggja fullnægjandi fjármögnun.“

Þetta segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í vikulegum pistli sínum. Þannig hafi álagið á spítalanum haldið áfram að aukast allt síðasta vor „og dag eftir dag er bráðamóttaka spítalans í Fossvogi full af fólki sem bíður þess að rúm finnist inni á yfirfullum spítalanum.“ Forstjórinn skírskotar síðan til karlalandsliðsins á EM í knattspyrnu og ber árangur þess og undirbúning saman við íslenska heilbrigðiskerfið.

„Það hefur verið hreint ævintýri að fylgjast með framgangi karlalandsliðsins í fótbolta á EM. Fyrir þau okkar sem hlustuðu á Heimi Hallgrímsson, þjálfara landsliðsins, tala á stjórnendafundi á Landspítala í vetur þá þarf árangurinn hins vegar ekki að koma á óvart. Markviss og þrotlaus vinna og skynsamlegt leikplan sem byggist á styrkleikum liðsmanna - og allt hvílir þetta á þeim grunni sem fjárfesting í innviðum fótboltans (íþróttavöllum, þjálfurum o.s.frv.) skapar.“

Páll segir að ekki þurfi að teygja sig langt í samanburðinum til þess að sjá líkindin við árangur heilbrigðiskerfisins. „Hann snýst um öflugt fólk sem vinnur markvisst eftir stefnu að sama markmiði - en byggist líka á grunni góðra, vel fjármagnaðra innviða (aðstöðu og menntunar). Með viðunandi fjármögnun eru fá takmörk fyrir þeim árangri sem íslenska heilbrigðiskerfið getur náð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert