Gagnrýnir könnun BHM

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, gagnrýnir kjarakönnun BHM og segir framsetninguna villandi. „Það er ómaklegt af formanni BHM að fullyrða að launamunur hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavík aukist og steypa þannig öll sveitarfélög í sama mót. Okkar rannsóknir, sem eru mun nákvæmari en kannanir, sýna að hjá Kópavogsbæ hefur dregið úr kynbundnum launamun, markmiðið er að útrýma honum.“

Frétt mbl.is: 11,7% kynbundinn launamunur innan BHM

Nýlega var greint frá því að samkvæmt kjarakönnun BHM hefði kynbundinn launamunur aukist hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg, þar sem hann hefði minnkað, en við gerð kjarakönnunar BHM gátu þátttakendur einungis valið úr tveimur möguleikum þegar kom að sveitarfélagi; Reykjavík eða annað. Var niðurstaðan sú að leiðréttur launamunur félagsmanna BHM hefði dregist saman úr 7,5% í 6,6% hjá Reykjavíkurborg, en aukist hjá öðrum sveitarfélögum, úr 2,9% í 13,8%. Taka skal fram að könnun BHM tók aðeins til félagsmanna bandalagsins og var svarhlutfall um 40%.

Samkvæmt rannsókn Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri er kynbundinn launamunur starfsmanna Kópavogsbæjar 3,25%, körlum í hag. Rannsóknin byggðist á raungögnum úr launadeild og náði þannig til allra fastráðinna starfsmanna.

„Okkar rannsóknir, sem eru mun nákvæmari en kannanir, sýna að hjá Kópavogsbæ hefur dregið úr kynbundnum launamun, markmiðið er að útrýma honum. Næsta rannsókn sem við gerum hér mun varpa ljósi á hvernig okkur gengur á þeirri leið. Undirbúningur að þeirri rannsókn hófst í maí og er stefnt að því að kynna niðurstöður hennar um áramót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert