Hefur áhrif á námsmenn eins og aðra

Bretar hafa tekið ákvörðun um að ganga út úr Evrópusambandinu.
Bretar hafa tekið ákvörðun um að ganga út úr Evrópusambandinu. AFP

„Nú er bara að bíða og sjá. Þetta er svo nýskeð og kannski kom öllum á óvart að þetta myndi fara svona. En þetta kemur til með að snerta fólk í öllum geirum þjóðfélagsins, námsmenn eins og aðra,“ segir Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður skrifstofu alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands, um ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu.

Friðrika segir stöðuna afar óljósa sem stendur þar sem ekki er vitað hvort Bretar verða áfram aðilar Evrópska efnahagssvæðisins. „Ég tók eftir óróa innan evrópska háskólakerfisins strax í morgun. Menn eru að spekúlera hvað verði í sambandi við styrki til námsmanna og styrki til rannsókna því Evrópusambandið styrkir rannsóknir í háskólum mikið.“

Hefur áhrif á flæði námsmanna innan Evrópu 

Alls staðar í Evrópu koma stærstu styrkirnir úr evrópskum rannsóknarsjóðum að sögn Friðriku. Hún segir flesta Íslendinga eflaust kannast við Erasmus-styrkinn en hann geta íslenskir námsmenn fengið sem eru á leið í nám til Bretlands eða annarra landa, það er þeir nemendur sem eru nú þegar í íslenskum háskólum. Styrkurinn kemur beint úr menntaáætlun Evrópusambandsins.

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þessi ákvörðun Breta hefur ekki áhrif á þá námsmenn sem þegar hafa fengið styrkinn og eru á leið út í nám eða starfsnám nú í haust. „Þetta mun ekki breyta neinu alveg strax,“ segir Friðrika.

Þá segir hún ákvörðunina hafa áhrif á flæði námsmanna innan Evrópu. „Við höfum áhyggjur af þessu og það er algjörlega óséð hvernig verður spilað úr þessu, bæði hvað varðar námsmenn og háskólastarf í Bretlandi almennt.“ Hún segir fjármögnun á rannsóknum í háskólum í Bretlandi einnig áhyggjuefni þar sem Evrópusambandið veiti mikið fé í þær.

Friðrika segir næstu skref að bíða og sjá þar sem allt geti gerst og bendir á að Ísland sé ekki aðili að Evrópusambandinu í því sambandi. „Við erum ekki meðlimir í Evrópusambandinu en erum samt meðlimir Evrópska efnahagssvæðisins og tökum þátt í menntaáætlun sambandsins í gegnum það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert