Með klofið hjarta

George Kristófer Young neyðist til að skipta sér í tvennt …
George Kristófer Young neyðist til að skipta sér í tvennt á mánudaginn. Golli/Kjartan Þorbergsson

„Ég er góður núna en spennan mun magnast og ég á örugglega eftir að verða ein taugahrúga á mánudaginn. Veit hreinlega ekki hvort ég get unnið handtak,“ segir „ísl-enski“ knattspyrnuáhugamaðurinn George Kristófer Young sem bíður viðureignar Íslands og Englands með mikilli eftirvæntingu.

George á íslenska móður og enskan föður. Hann fæddist á Íslandi en bjó fyrstu fimmtán árin í Englandi. „Núna er ég búinn að búa í sextán ár á Íslandi, þannig að kannski er ég orðinn örlítið meiri Íslendingur en Englendingur,“ segir hann sposkur.

Hann segir það líka mannlega tilhneigingu að halda frekar með litla liðinu í keppni, auk þess sem enginn geti komist hjá því að hrífast með íslenska ævintýrinu á EM. Árangur liðsins sé þegar orðinn undraverður.

„Annars er hjartað alveg klofið. Bæði lið eru mér jafnkær. Ég hef alltaf haldið með Englandi á stórmótum og þekki ensku leikmennina betur en þá íslensku. Ég er Manchester United-maður og hreifst af Marcus Rashford í vor en hafði ekki heyrt um Arnór Ingva Traustason fyrr en hann kom inn á gegn Austurríki,“ segir George.

Hann viðurkennir að hann hafi síður viljað að liðin hans mættust á mótinu. „Ég fagnaði sigurmarki Íslands gegn Austurríki að sjálfsögðu ógurlega en sökk svo niður í stólinn þegar ég áttaði mig á því hvað sigurinn þýddi.“

George segir pressuna augljóslega á Englendingum. Ísland sé þegar orðið „sigurvegari“ á EM og geti borið höfuðið hátt en Roy Hodgson, landsliðseinvaldur Englands, verði án efa að finna sér heilsárshús á Spáni verði lærisveinar hans undir.

Þegar gengið er á George telur hann enska liðið sigurstranglegra í leiknum. Það búi klárlega að betri leikmönnum. Á móti komi að íslenska liðsheildin sé tvímælaust betri, auk þess sem íslenska liðið sé leikreyndara en hið unga lið Englands. George spáir Englendingum sigri, 2:1, en vonar eigi að síður að leiknum ljúki með vítaspyrnukeppni.

Best sé að setja viðkvæm mál af þessu tagi í hendurnar á almættinu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert