Mikið um útköll vegna ferðamanna

mbl.is/Eggert

Nokkuð hefur verið um útköll hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðustu daga og hafa flest þeirra verið tengd ferðalöngum að því er segir í fréttatilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitir frá Vesturlandi og Húnavatnssýslum voru kallaðar út í gærkvöldi vegna veiðimanns sem ekki hafði skilað sér á tilsettum tíma og fannst sá heill á húfi tæpum fimm klukkustundum síðar.

Björgunarsveitin Stefán í Mývatnssveit sinnti einnig slösuðum ferðamanni á Hverfjalli/felli, en bera þurfti manninn niður og koma honum í sjúkrabíl. Sama björgunarsveit flutti einnig ökklabrotna konu frá Leirhnjúk í sjúkrabíl á þriðjudag.

Á miðvikudagskvöld voru sveitir frá Suðurlandi kallaðar út vegna göngumanns sem hafði örmagnast á Þórsmerkursvæðinu. Sá var í fylgd fleiri göngumanna, en enginn þeirra var viss á staðsetningu sinni. Eftir nokkra leit fundust mennirnir og voru þeir fluttir á Hvolsvöll í hendur sjúkraliðs og lögreglu.

Á svipuðum tíma voru björgunarsveitirnar Blanda á Blönduósi og Strönd á Skagaströnd kallaðar út vegna hestamanns sem hafði fallið af baki í reiðtúr við Kjalveg. Vegna langrar vegalengdar og þar sem óttast var um alvarleg meiðsli var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út og flutti hún hestamanninn á sjúkrahús.

Á þriðjudag hófst þá eftirgrennslan eftir tveimur konum sem ekki höfðu skilað sér á réttum tíma. Fundust þær í Hlöðuvík á Hornströndum, en þær höfðu ákveðið að bíða þar af sér þoku og slæmt veður sem, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar, var hið rétta í stöðunni.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill benda ferðalöngum á nauðsyn þess að skilja eftir ferðaáætlun sína, t.d. á vefnum safetravel.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert