Ræktar þörunga úr Mývatni

Arnheiður Rán Almarsdóttir ræktar þörunga úr Mývatni.
Arnheiður Rán Almarsdóttir ræktar þörunga úr Mývatni. mbl.is/Golli

Á rannsóknarstofu í  stórri skemmu sem var í eigu Kísiliðjunnar í Mývatnssveit er Arnheiður Rán Almarsdóttir, líftæknir hjá fyrirtækinu Mýsköpun ehf., með aðstöðu.

Þar ræktar hún chlorellu- og spírulínaþörunga úr Mývatni ásamt aðstoðarkonu sinni Hönnu Rún Jóhannesdóttur og stefnir að því að búa til úr þeim fæðubótarefni sem hægt verður að selja hér á landi.

Hanna Rún Jóhannesdóttir að störfum á rannsóknarstofunni.
Hanna Rún Jóhannesdóttir að störfum á rannsóknarstofunni. mbl.is/Golli

Prófa annað en ferðaþjónustu

Verkefnið hófst fyrir þremur árum að frumkvæði Skútustaðarhrepps, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga ásamt fleiri fyrirtækjum og einstaklingum. Tilgangurinn var að prófa sig áfram með annars konar atvinnustarfsemi á svæðinu en ferðaþjónustu.

Kúluskítur sem Arnheiður fann við strendur Mývatns.
Kúluskítur sem Arnheiður fann við strendur Mývatns. mbl.is/Golli

Stórt verkefni

„Þetta er rosalega langt ferli. Þetta eru margir stofnar og það þarf að fara margar ferðir, taka sýni, hreinsa og finna tegundirnar. Þörungarnir í vatninu hafa aldrei verið kortlagðir almennilega og þess vegna er þetta dálítið stórt verkefni,“ segir Arnheiður Rán.

Arnheiður með einn af þörungunum.
Arnheiður með einn af þörungunum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Mikill tími í að sækja um styrki

Verkefnið er eingöngu fjármagnað með styrkjum og hefur sá stærsti komið frá Tækniþróunarsjóði. Hún eyðir miklum tíma í að sækja um styrki og eru umsóknirnar hátt í tuttugu á hverju ári. Stundum fara tvær vikur í að sækja um einn og sama styrkinn. Umsóknir um erlenda styrki eru einnig í farvatninu.

Það er nóg af tilraunaglösum á rannsóknarstofunni.
Það er nóg af tilraunaglösum á rannsóknarstofunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

DNA-greining í Hollandi

Arnheiður greinir mestmegnis grænþörunga og fer með sýni í DNA-greiningu til Hollands því það er ódýrara en að láta gera það hérlendis. „Maður vill nota íslenska þjónustu en hún er bara of dýr,“ segir hún.

Vonar að fólk kaupi íslenskt

Þörungarnir eru ríkir af próteinum, steinefnum og vítamínum og vonast Arnheiður til að lítils háttar framleiðsla geti hafist um leið og ræktunin verður komin í 20 lítra tanka. Það verður vonandi í haust. „Fólk er að kaupa þetta frá Kína og Frakklandi. Við leyfum okkur að vona að fólk vilji frekar kaupa íslenskt,“ segir hún og bætir við að sum veitingahús, meira að segja eitt Michelin-veitingahús í Lissabon, séu farin að setja þörunga í matinn, hollustunnar vegna.

Stórhuga en aldrei rík

Arnheiður hefur gaman af verkefninu og ætlar sér stóra hluti. „Þessu verkefni er ætlað að auka fjölbreytni á svæðinu.Við erum stórhuga en ég hugsa að við verðum aldrei rík á þessu.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert