Sýknað af bótakröfu lögreglukonu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið af bótakröfu lögreglukonu sem slasaðist við æfingar í líkamsræktarstöð í Borgarnesi.

Hún var ekki talin hafa verið við störf í skilningi lögreglulaga eða kjarasamnings þegar hún slasaðist.

Konan kvaðst hafa orðið fyrir slysi 13. október 2013, þegar hún var við æfingar í líkamsræktarstöð í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Hún var umrætt sinn á bakvakt og var að hlaupa á hlaupabretti. Þegar hún var búin að hlaupa um einn kílómetra datt vaktsíminn niður á brettið. Hún ætlaði að reyna að ná honum í fallinu en við það féll hún sjálf niður á hlaupabrettið, á hnén og með hendurnar fram fyrir sig. Því næst skaust hún af hlaupabrettinu og út á gólf. 

Við þetta slasaðist hún en nokkrum mánuðum síðar kom í ljós talsverð bólga í liðnum og slit sást á brjóski í hnéskeljarlið, á lærleggshnúa innanvert og afturhorn innanverða liðþófans var rifið. Var hún óvinnufær eftir aðgerð hjá lækni til 18. mars 2014.

Hún byggði á því að ríkinu beri að bæta henni líkamstjón hennar vegna slyssins 13. október 2013 samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 á grundvelli 30. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en þar segi að ríkissjóður skuli bæta lögreglumönnum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns. 

Slysið hafi verið vinnuslys og verði rakið til starfs hennar og því beri ríkissjóði að bæta henni það tjón sem hlaust af því.

Héraðsdómur féllst hins vegar ekki á það.

Í dómnum er meðal annars bent á að líta verði svo á að 30. gr. lögreglulaga eigi samkvæmt orðanna hljóðan einkum við þau tilvik þegar lögreglumaður er við reglubundin störf og lýtur boðvaldi sinna yfirboðara, ef sú er staðan. Hið sama gildi um það þegar lögreglumaður er kallaður til starfa þegar hann er á bakvakt, eða undir öðrum kringumstæðum, þannig að hann sinni löggæslustörfum.

„Þar sem hér er um undantekningarreglu að ræða frá almennum reglum skaðabótaréttar verður talið að ákvæðið sem slíkt verði að túlka nokkuð þröngt eða að minnsta kosti eftir orðanna hljóðan. Því verður það ekki skýrt sem svo að það nái til athafna lögreglumanna sem ekki geta talist beinlínis hluti af reglubundnum störfum þeirra en tengjast þeim þó, svo sem sannarlega gildir um líkamsþjálfun utan vinnutíma,“ segir meðal annars í dómnum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert