Andlát: Steen Ulrik Johannessen

Steen Ulrik Johannessen.
Steen Ulrik Johannessen.

Steen Ulrik Thaulow Johannessen, blaðamaður hjá Ritzau-fréttastofunni í Kaupmannahöfn, lést mánudaginn 20. júní eftir skammvinn veikindi. Hann var 62 ára þegar hann lést.

Steen Ulrik var fæddur 23. desember 1953. Hann nam blaðamennsku við Danmarks Journalisthøjskole og útskrifaðist þaðan árið 1983. Hann hóf störf við Ritzaus Bureau árið 1986 og starfaði þar til dánardags.

Steen Ulrik skrifaði mikið um norrænt samstarf og vestnorræn málefni, ferðamál og ekki síst Grænland í seinni tíð. Auk þess skrifaði hann reglulega greinar og fréttir í grænlensk blöð. Hann heimsótti Ísland nokkrum sinnum á hverju ári og átti hér fjölda vina og kunningja, ekki síst í stétt blaða- og fréttamanna og eins innan ferðaþjónustunnar. Steen Ulrik var mikill gleðigjafi og góður vinur vina sinna.

Steen Ulrik var einlægur Íslandsvinur og rakti áhuga sinn á landinu til þess að hann safnaði íslenskum frímerkjum sem barn eins og kom fram í löngu viðtali við hann í Morgunblaðinu árið 2011. Á námsárum sínum í Árósum kynntist hann Íslendingum á stúdentagörðum og byrjaði þá að læra íslensku og náði ágætum tökum á málinu. Auk þess talaði hann norsku eins og innfæddur og hafði tök á mörgum öðrum tungumálum.

Auk fréttaskrifa og greinaflokka fyrir hina ýmsu fjölmiðla skrifaði Steen Ulrik ferðahandbókina Turen går til Island auk ferðabóka um Srí Lanka og Maldíveyjar, Færeyjar, Berlín og St. Pétursborg. Þá var hann aðalhöfundur sýnisbókar um vestnorræna samstarfið milli Íslands, Grænlands og Færeyja. Hann var einnig fararstjóri á námskeiðum Norrænu blaðamannamiðstöðvarinnar í Árósum um Færeyjar, Grænland, Ísland og norðurslóðir Kanada.

Eftirlifandi sambýliskona Steens Ulriks er Lisbeth Skytte Christiansen leirlistamaður og eiga þau dótturina Line.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert