Davíð óskaði Guðna til hamingju með væntanlegan sigur

Fjórir efstu frambjóðendurnir voru fullir þakklætis og slógu á létta …
Fjórir efstu frambjóðendurnir voru fullir þakklætis og slógu á létta strengi á kosningavöku RÚV í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður auðvitað mjög vel með það og er afar þakklátur fyrir þennan stuðning, en sjáum hvað setur, það er enn þá margt ótalið og nóttin löng,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, þegar fjórir efstu frambjóðendur samkvæmt fyrstu tölum mættu í viðtal í sjónvarpssal í kvöld. 

Guðni mældist með 37,7% atkvæða á landsvísu þegar fyrstu tölur höfðu verið birtar úr öllum kjördæmum. Halla kom þar á eftir með 29,9% atkvæða. 

Guðni sagði að hann væri snortinn, en á sama tíma stressaður. „Þetta hefur tekið á, ég segi það bara alveg frá hjartanu. Ég er ekki vanur kosningaslag af þessu tagi en þetta er búið að vera skemmtilegt, þrátt fyrir fyrstu tölur sem gerðu mig hikandi. Ég hélt að munurinn yrði meiri.“

Halla Tómasdóttir leiðir á eftir Guðna og sagði hún að henni hafi liðið vel allan tímann á meðan kosningabaráttunni stóð. „Ég vildi aldrei leggja of mikið mark á skoðanakannanir, en þetta er miklu meira en ég átt von á. Ég sagði við stuðningsfólk mitt að við myndum skemmta okkur í kvöld, sama hvað, við erum sigurvegarar því við erum að koma glöð í mark. Ég er þakklát fyrir stuðninginn og leikurinn er ekki búinn.“ 

Andri Snær Magnason fagnaði mjög fyrstu tölum úr Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem hann mældist með 23,68% atkvæða, heldur meira en í öðrum kjördæmum. „Ég var mjög ánægður að fá þessar nýjustu tölur inn í kosningapartýið.“ Andri Snær gerði upp kosningabaráttuna og sagði að hann hefði viljað getað sest niður með Höllu og Guðna og átt hringborðsumræður um framtíðina. 

Davíð Oddsson sagði að sér liði vel eftir kosningabaráttuna og brá sér svo í hlutverk álitsgjafans. „Mér sýnast þessar tölur sýna að Halla hafi komið okkur mest á óvart, meðal annars vegna þess að kannanir sýndu að hún var farin að keppa við þann sem var í fyrsta sæti, Guðna. Ég myndi álíta að Guðni myndi hafa það, en Halla hefur fengið frábæra útkomu.“ Davíð óskaði svo Guðna til hamingju með væntanlegan sigur og óskaði honum farsældar í störfum. 

„Ég vil ítreka að það er ekki búið að telja öll atkvæði,“ var Guðni þá fljótur að segja. 

Sumir uppgefnir en aðrir fullir orku

Orka og þreyta frambjóðenda var einnig til umræðu og voru frambjóðendur spurðir hreint út hvort þeir væru uppgefnir. 

„Þetta var tveggja mánaða keyrsla. Ég verð ekki uppgefinn fyrr en ég verð uppgefinn. Ætli hrunið byrji ekki um þrjúleytið,“ sagði Andri Snær. 

Halla sagði að hún hefði fengið orku við að umgangast fólk í kosningarbaráttunni. „Það hefur ekki dregið úr mér, heldur færst í aukana. Ég gæti alveg haldið áfram og ég held að mitt fólk gæti það líka. En ég hlakka til að eyða tíma með börnunum mínum og hundinum sem saknar mömmu sinnar og ég hlakka til að sofa meira. En ég hef nærst á þessu ferðalagi.“

Guðni viðurkenndi að hann væri þreyttur. „Ég held að ég hafi orðið værukær vegna góðs gengis í könnunum. Þegar maður sér lokamarkið þá fyllist maður þessari orku sem maður fær við að vita að maður er að ná því sem maður ætlaði sér. En hvað sem gerist, þá taka við nýjar áskoranir, nýr kafli, eða gamall kafli, kannski fer ég aftur í sagnfræðina.“

Davíð sagðist hins vegar ekki finna fyrir neinni þreytu. „Það get ég ekki sagt nema síður sé, ég er ekki vitund þreyttur, þar sem ég er elstur ætti ég nú að vera það. Ég skil ekki hvað ég er ánægður og sáttur. Það er ómetanlegt að fá að taka þátt í einum slag enn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert