Kennari Huldu Bjarkar sýknaður

Hulda Björk Þóroddsdóttir.
Hulda Björk Þóroddsdóttir.

Leiðbeinandi Huldu Bjarkar Þóroddsdóttur, sem lést í svifvængjaflugi skammt frá borginni Zurich í Sviss fyrir þremur árum, var í vikunni sýknaður af ákæru um manndráp af gáleysi. Málaferlin hafa verið ekkli og fjölskyldu hennar erfið og var niðurstaðan áfall. Harpa Kristín Þóroddsdóttir, systir Huldu Bjarkar, ræddi við blaðamann mbl.is um málið.

Hjónin Hulda Björk og Jared Evan Bibler voru ásamt hópi annarra á skipulagðri æfingu í svifvængjaflugi um miðjan júlímánuð árið 2013. Þau störfuðu bæði hjá endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækinu Deloitte í landinu og voru í skólanum til að afla sér leyfis til svifvængjaflugs í Sviss.

Á lokaæfingu undir stjórn leiðbeinanda lenti Hulda Björk í aðstæðum sem hún réð ekki við og náði varafallhlíf ekki að draga nægilega úr falli hennar til jarðar. Var hún látin þegar að var komið.

Hallast að því að áfrýja ekki

Málið var tekið fyrir í Sviss á miðvikudaginn í þessari viku og var dómur kveðinn upp daginn eftir. Fjölskyldan hefur ekki fengið rökstuðning dómara en von er á honum eftir helgi. „Lögfræðingur mannsins hennar fékk bara fax með einni setningu þar sem kom fram að hann hefði verið sýknaður,“ segir Harpa Kristín í samtali við mbl.is.

Fjölskyldan hefur tíu daga til að áfrýja dómnum og segir Harpa Kristín að þau hallist að því að gera það ekki. „Þetta kostar mikla peninga og er mjög erfitt andlega. Það hefur verið mikil barátta að fá hann ákærðan. Bara það eitt var mjög erfitt og þurfti Jared að berjast mjög mikið fyrir því að fá saksóknarann til að taka málið fyrir,“ segir hún.

Ekkill Huldu Bjarkar og lögmaður hans fóru með málið til yfirsaksóknaranefndar. Þar var málið tekið fyrir og segir Harpa Kristín að þar hafi eiginlega strax verið ákveðið að saksóknari ætti að leggja fram ákæru þar sem þetta væri gott og sterkt mál.

Málið hefur að sögn Hörpu Kristínar vakið mikla athygli í svissneskum fjölmiðlum. „Mönnum finnst ástandið ekki nógu gott, að hann hefði átt að vera dæmdur sekur. Það er talað um að það sé mjög erfitt að fá sakfellingu þarna úti. Ef það er minnsti vafi um sekt þá er dæmd sýkna,“ segir hún.

Stytta sem ekkill Huldu Bjarkar setti við slysstaðinn til minningar …
Stytta sem ekkill Huldu Bjarkar setti við slysstaðinn til minningar um hana. Ljósmynd/Harpa Kristír Þóroddsdóttir

Lét hana gera hættulega æfingu

„Við sem þekkjum Huldu vitum vel að hún gerði ekkert óútpælt eða án þess að gæta fulls öryggis. Hún vissi að svifvængjaflugi fylgdi ákveðin hætta og þess vegna fór hún í flugskóla úti í Sviss þar sem hún gat flogið undir leiðbeiningum kennara sem hún treysti til að koma í veg fyrir að hún tæki óþarfa áhættur, gerði eitthvað sem hún ætti ekki að gera og gæti hjálpað henni ef hún lenti í vandræðum, meðan hún öðlaðist meiri reynslu sem flugmaður,“ skrifaði Harpa Kristín um málið í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Kennarinn hennar lét hana hins vegar gera æfingu sem talin er mjög hættuleg, eingöngu fyrir mjög reynda flugmenn, æfingu sem aðeins á að gera í mikilli hæð og helst yfir vatni, þar sem aðstæður eins og Hulda lenti í eru nokkuð algengar. Menn þurfa að hafa góðan tíma til að reyna að komast úr þeim og vera nógu hátt uppi til að varafallhlífin nái að opnast og draga úr fallinu. 

Kennari Huldu brást því algjörlega því trausti sem hún hafði til hans því ekki var nóg með að hann hafi sagt henni að gera þessa æfingu heldur var hún í allt of lítilli hæð fyrir varafallhlífina og átti því enga von er hún hringsnerist til jarðar á ofsahraða,“ skrifaði Harpa Kristín einnig.

Ekki á staðnum til að svara fyrir sig

Leiðbeinandinn Thomas Kühne hefur verið við störf í flugskólanum Robair Paragliding GmbH allt frá andláti Huldu Bjarkar. Hann er eigandi flugskólans og segir Harpa Kristín að hann og lögfræðingur hans hafi verið mjög erfiðir.

„Þeir hafa logið mikið og eru alltaf að reyna að koma sökinni á systur mína. Þeir hafa sagt að hún hafi verið reynslumeiri en hún var, búið til flugtíma og leyfi sem hún var ekki með. Það er svolítið erfitt að sitja og hlusta á einhvern ljúga upp á látna eiginkonu sína sem er ekki á staðnum til að svara fyrir sig.

Þá segir Harpa Kristín að svo virðist sem leiðbeinandinn hafi ekki lært neitt af andláti Huldu Bjarkar. „Við höfum farið að slysstaðnum og þar hefur Jared séð flugnema vera að gera svipaðar æfingar og hún lést við að gera,“ segir hún og bætir við að þetta sé annað dauðsfallið af hans völdum. Árið 2007 hafi rétt rúmlega fertug kona látið lífið við sömu æfingu og Hulda. Málið var aftur á móti ekki rannsakað þar sem fjölskylda hennar taldi að um slys hefði verið að ræða.

Eiginmaður Huldu Bjarkar er mjög þreyttur eftir málaferlin og baráttuna fyrir þeim. „Það var rosalega erfitt fyrir hann að fá þennan sýknudóm. Við vildum fá hann dæmdan sekan, aðallega til að hann yrði gerður ábyrgur fyrir þessu og við viljum líka sjá breytingar. Við viljum koma í veg fyrir annað slys, að það verði tekið harðar á þessu, að kennararnir verði gerðir ábyrgir fyrir nemendum sínum,“ segir Harpa Kristín að lokum.

Frétt mbl.is: Leiðbeinandinn ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Frétt mbl.is: Lést í svifvængjaslysi í Sviss

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert