„Kúl“ að vera með kosningarétt

mbl.is/Kristín Edda Frímannsdóttir

„Við erum að kjósa í fyrsta sinn í kosningum, það er mjög spennandi og við erum búin að bíða í marga mánuði eftir þessu,“ segja þau Ívar Ölmu-Hlynsson og María Lísa Alexía Jóhannsdóttir. Þau hafa bæði tekið ákvörðun um hvern þau ætla að kjósa sem næsta forseta lýðveldisins Íslands.

„Ég tók endanlega ákvörðun fyrir svona tveimur vikum en ég er búinn að vera að horfa á þættina og annað hjá RÚV með forsetaframbjóðendunum,“ segir Ívar. Krakkarnir voru snyrtilegir til fara þegar blaðamaður mbl.is ræddi við þá en María tjáði honum að þau hafi frétt það rétt áður en þau fóru út að maður ætti að vera fínn á kjördag. „Þetta er bara gaman og mikil stemmning, það er eitthvað hátíðlegt við þetta,“ segir María og Ívar bætir við að manni líði ögn fullorðnari við það eitt að fá að kjósa.

Þau segja meirihluta jafnaldra sinna ætla að kjósa þótt það séu ávallt einhverjir sem vilji sleppa því. „Við erum búin að vera að bíða eftir þessum degi. Það er mjög „kúl“ að vera kominn með kosningarétt og geta farið að kjósa,“ segir Ívar. Þá segjast þau vera sátt með að hljóta ekki kosningarétt fyrr en við átján ára aldur þar sem erfiðara geti verið að taka sjálfstæða og upplýsta ákvörðun yngri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert