„Örlagarík og spennandi nótt fram undan“

Halla Tómasdóttir og Guðni Th. Jóhannesson í beinni útsendingu í …
Halla Tómasdóttir og Guðni Th. Jóhannesson í beinni útsendingu í RÚV eftir að fyrstu tölur voru lesnar upp. mbl.is/Árni Sæberg

„Jú, þetta kemur mér á óvart, ánægjulega á óvart,“ sagði Halla Tómasdóttir í samtali við fréttamann RÚV, eftir að fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi höfðu verið lesnar upp, rétt eftir klukkan 22 í kvöld. Halla var klökk og bað fréttamann um að spyrja sig ekki of mikið. „Ég gæti misst röddina og kannski eitthvað meira.“

Halla Tóm­as­dótt­ir er með 2.181 at­kvæði en Guðni Th. Jó­hann­es­son leiðir með 2.273 at­kvæði í Suðurkjördæmi. 

Halla lýsti yfir þakklæti til kjósenda í Suðurkjördæmi og sagðist vera orðlaus, að minnsta kosti í bili.  „Ég trúi á lýðræðið og trúi á fólkið. Þetta er ánægjulegt og virkar eins og uppskera fyrir mikla vinnu og örlæti.“

Fyrstu tölur koma á óvart

„Þetta verður meira spennandi en kannanir gefa til kynna,“ sagði Guðni í samtali við fréttamann RÚV. „Það er örlagarík og spennandi nótt fram undan hjá okkur öllum. Verði næstu tölur eins og þessar verður spennan enn meiri og við verðum að sjá hvað setur.“ 

Guðni sagði að fyrstu tölur kæmu honum á óvart en hrósaði Höllu fyrir góðan árangur. 

Stuttu seinna voru fyrstu töl­ur lesn­ar upp í Suðvest­ur­kjör­dæmi en þar er búið að telja 27.300 at­kvæði. Guðni Th. Jó­hann­es­son leiðir með 10.750 at­kvæði. Næst á eft­ir kem­ur Halla Tóm­as­dótt­ir með 8.150 at­kvæði.

„Mér líður kannski ögn skár en síðast. Þetta er ögn nær því sem þessar blessuðu kannanir gerðu ráð fyrir og maður gerði kannski full mikið ráð fyrir.“ Guðni viðurkenndi að hann hefði ef til vill verið full værukær gagnvart skoðanakönnunum síðustu daga. „Kannski var erfitt að halda forskoti svona lengi.“ Hann sagði það þó vera hlutverk álitsgjafanna að rýna í tölurnar. „Ég verð í þessu hlutverki sem ég valdi mér, að vera forsetaframbjóðandi.“ Guðni hlakkar til að heyra næstu tölur, en viðurkenndi þó að vera ögn kvíðinn líka. 

Eftir lestur fyrstu talna úr Suðvesturkjördæmi sagði Halla að sér liði vel. „Mér fannst áður en ég kom hingað í kvöld hafa unnist mikill sigur í þessari vegferð. Við erum glöð og ekki þreytt. Mér finnst merkilegast að fólk vill ekki láta skoðanakannanir ráða för, heldur lýðræðið. Ég get ekki annað en fagnað þessum mikla meðbyr og stuðningi.“ 

Stuðningsmenn Guðna Th. fagna fyrstu tölum úr Suður- og Suðvesturkjördæmi …
Stuðningsmenn Guðna Th. fagna fyrstu tölum úr Suður- og Suðvesturkjördæmi á Grand hóteli í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert