Seltirningar áhugafólk um þjóðmál

Seltjarnarnes
Seltjarnarnes Sigurður Bogi Sævarsson

„Þeir sem búa á Seltjarnarnesi eru áhugafólk um þjóðmál og vita að það skiptir máli að nýta atkvæðisrétt sinn,“ segir Pétur Kjartansson, formaður yfirkjörstjórnar á Seltjarnarnesi. Íslendingar ganga að kjör­borði í dag og velja sjötta for­seta ís­lenska lýðveld­is­ins. mbl.is leit við í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og tók púlsinn á fólki.

Pétur segir kosningaþátttöku á Seltjarnarnesi almennt betri en landsmeðaltalið. Um það bil 20% af þeim sem eru á kjörskrá á Seltjarnarnesi hafa greitt atkvæði utan kjörfundar. Um klukkan tíu í morgun höfðu um 3% Seltirninga greitt atkvæði. „Þetta er ekkert verulegt frávik frá síðustu kosningum en það er erfitt að marka svona snemma,“ segir Pétur.

Þegar blaðamann mbl.is bar að garði var yfirkjörstjórn Seltjarnarness að taka við utankjörfundar atkvæðum og flokka þau niður eftir kjördeildum. Það er langur dagur fyrir höndum en kosningu lýkur klukkan tíu í kvöld. Að kosningu lokinni þarf að bera saman utankjörfundaratkvæði og þau sem greidd eru á kjörstað. Síðan er gengið frá skýrslu til Hagstofu og kjörstjórnar í kjördæminu og atkvæðin send til talningar í Kaplakrika í Hafnarfirði.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Pétur tekur að sér verkefni sem þetta en hann hefur verið í kjörstjórn í um fimmtán ár. „Þetta rifjast nokkuð fljótt upp fyrir manni hvað þarf að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert