Stefanía: Halla kemur á óvart

Halla, Guðni, Davíð og Elísabet fylgjast með fyrstu tölum berast.
Halla, Guðni, Davíð og Elísabet fylgjast með fyrstu tölum berast. mbl.is/Árni Sæberg

„Við tökum ansi mikið mark á skoðanakönnunum og þessar síðustu bentu til þess að Halla væri að sækja í sig veðrið en þetta er miklu meira en þær gáfu til kynna,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur um fyrstu tölur kvöldsins.

Eftir fyrstu tölur mælist Guðni Th. Jó­hann­es­son með 38,2% fylgi og Halla Tómasdóttir mælist með 30,4% fylgi. Þetta er töluverð breyting frá síðustu könnun Gallup sem gerð var dagana 20. og 24. júní. Þar mældist Guðni með 44,6% fylgi og Halla var einungis með 18,6%. Hún hafði þó bætt mjög mikið við sig milli kannana þar sem fylgið mældist einungis 12,5% í þeirri sem gerð var þar á undan.

Stefanía segir frammistöðu Höllu í kosningaþáttum líklega skýra breytinguna auk þess sem hún hafi auglýst sig vel undanfarið. „Það er líklegt að fólki hafi fundist hún koma vel út og kynnst henni betur. Það voru ekki margir umræðuþættir í sjónvarpi þar sem allir frambjóðendur voru komnir saman en ég tel að hún hafi grætt mjög á þeim,“ segir Stefanía. „Svo hefur hún auglýst dálítið. Hún var á strætóskýlum og sendi bækling í öll hús að minnsta kosti í Reykjavík. Það er væntanlega að skila sér.“

Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Fylgið dalar en þó líklegur sigurvegari

Stefanía bendir á að Guðni sé hins vegar að fá heldur lakari kosningu en kannanir gáfu til kynna. Fylgið hefur dalað nokkuð undanfarið en líkt og áður segir mældist hann með 44,6% í síðustu könnun og hafði þá tapað því niður úr 51% milli kannana. Samkvæmt fyrstu tölum er hann með tæplega 40% fylgi.

Þrátt fyrir þetta bendir Stefanía á að Guðni sé líklegur til að standa uppi sem sigurvegari samkvæmt fyrstu tölum.

Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason eru að fá heldur lakari kosningu en kannanir gáfu til kynna. Davíð mælist með 12,5% eftir fyrstu tölur og Andri með 13,7%. Þeir hafa hins vegar staðið í stað milli síðustu kannana Gallup með 16% fylgi.

Stefanía bendir á að Halla virðist vera að sækja eitthvað frá Guðna, Davíð og Andra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert