Andri Snær aftur í framboð eftir fjögur ár?

Andri Snær Magnason ásamt fjölskydu sinni á kjörstað í dag.
Andri Snær Magnason ásamt fjölskydu sinni á kjörstað í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri Snær Magnason var kynntur á svið sem forseti Draumalandsins þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína í Iðnó stuttu eftir miðnætti. 

„Já, kæru vinir, þetta er búið að vera ótrúlegt ferðlag. Við vissum ekkert hvernig þetta myndi fara, við ákváðum að spila heiðarlegan leik og fara út í óvissuna.“

Andri Snær fagnaði góðu gengi í Reykjavík, en velti svo fyrir sér hvað hefði mátt gera betur. „Ég mætti vera kona og við hefðum mátt fá nokkrar mínútur í sjónvarpi í viðbót.“

Næst minntist hann á málefnin og stuðninginn. „Við fórum af stað með skýr og falleg málefni, þetta er búið að vera algjört ævintýri að fá gamla vinahópinn úr Árbænum og allan hinn skapandi kraft Íslands með sér í lið, Bubba, Björk og alla fjölskylduna, rithópinn, Möggu og ótrúlega skemmtilegt unglingagengi sem gekk til liðs við okkur.“

Andri Snær hélt svo áfram og sagðist ætla að reyna að segja eitthvað gáfulegt. „Við settum mikilvæg málefni á dagskrá. Kannski var einhver sem setti ekki jafnafgerandi mál á dagskrá. Ég held að við höfum náð ákveðnum hughrifum, kannski getur forsetinn tekið þau upp, hann vantar kannski einhver málefni. Ég ætla samt ekki að byrja á að stríða honum,“ sagði Andri Snær og hló.

Hann sagði baráttuna fyrst og fremst hafa verið skemmtilega og að skemmtuninni væri hvergi nær lokið. „Við skemmtum okkur fram á nótt. Það kemur vonandi bók í haust, stundum er maður 10 árum á undan sjálfum sér. Við sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér. Við erum með framtíðina en við þurfum kannski að bíða í fjögur ár.“ Af þessum síðustu orðum Andra Snæs mætti því ef til vill túlka það sem svo að hann verði aftur með í kosningabaráttunni eftir fjögur ár. 

Kátir gestir á kosningavöku Andra Snæs í Iðnó í kvöld.
Kátir gestir á kosningavöku Andra Snæs í Iðnó í kvöld. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert