Búist við rúmlega 10 þúsund manns

Frá leik Íslands og Austurríkis á Ingólfstorgi. Um 4 þúsund …
Frá leik Íslands og Austurríkis á Ingólfstorgi. Um 4 þúsund manns mættu á Ingólfstorg til að fylgjast með leikjum Íslands í riðlinum en fjöldinn gæti orðið 10 til 15 þúsund á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Búist er við 10 til 15 þúsund manns á Arnarhól á morgun þar sem leikur Íslands og Englands verður sýndur á risaskjá. Mikið var þrýst á aðstandendur EM-torgsins að færa leikinn á stærra svæði þar sem Ingólfstorg var sprungið vegna áhuga Íslendinga og erlendra ferðamanna á landsleikjum Íslands á mótinu. Um 4 þúsund manns mættu á leiki Íslands á Ingólfstorgi í riðlakeppninni.

Haraldur Daði Ragnarsson, hjá Manhattan-markaðsráðgjöf sem sér um framkvæmd EM-torgsins, segir að hafist verði handa strax í fyrramálið við að setja upp risaskjáinn á Arnarhóli. Því fylgi mikið umstang en loka þarf götum vegna samkomunnar. 

EM-torgið sjálft verður á sínum stað fyrri part dagsins en þegar leikur Íslands hefst klukkan sjö síðdegis á morgun verður slökkt á skjánum þar þannig að allir safnist saman á Arnarhóli. EM-stofan verður í beinni á Arnarhóli fyrir leik og býst Haraldur Daði við mikilli stemmningu frá íslensku stuðningsmönnunum, m.a. stuðningsmannasveitinni Tólfunni sem hafi haldið uppi góðri stemmningu á EM-torginu fyrir leiki Íslands á EM til þessa.

Haraldur Daði segir það frábært mál að einhugur hafi verið um það að setja upp risaskjáinn á Arnarhóli þar sem það var ekki sjálfgefið að aðstandendurnir væru tilbúnir að leggja til fjármagnið til þess að það yrði að veruleika. „Það voru allir sammála um að gera þetta,“ segir Haraldur Daði en þeir aðilar sem standa að EM-torginu eru Reykjavíkurborg, Íslensk getspá, Landsbankinn, Icelandair, Coca-Cola, KSÍ, N1, Síminn og Borgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert