„Held að sigurinn sé í höfn“

Guðni fagnaði vel er hann hitti stuðningsmenn sína í kvöld.
Guðni fagnaði vel er hann hitti stuðningsmenn sína í kvöld. mbl.is/Eggert

„Það er ekki búið að telja öll atkvæði en ég held að sigurinn sé í höfn. Það er ekkert flóknara en það,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson þegar hann hitti stuðningsmenn sína á Grand hóteli rétt í þessu og uppskar mikil fagnaðarlæti og að lokum afmælissöng. 

Guðni leiðir kosningarnar með 37,8% fylgi þegar 71 þúsund atkvæði hafa verið talin. Halla Tómasdóttir fylgir á eftir með 29,8%. 

„Elskulegu þið. Frá upphafi hef ég notið þvílíks stuðnings að orð fá því vart lýst,“ sagði Guðni þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína. Hann sagði að gaman hefði verið að finna fyrir stuðningnum við þau sjónarmið, þá sýn og sannfæringu, sem hann hefur um forsetaembættið. „Nú virðist sigurinn í höfn og nú tekur næsti kafli við.“

Guðni sagði baráttuna hafa verið stressandi á köflum. „Þetta var meira að segja pínulítið stressandi í kvöld,“ sagði hann. „En með ykkar stuðningi hafðist þetta og ég treysti því að ég eigi áfram ykkar stuðning.“

Frá kosningavöku Guðna á Grand hóteli.
Frá kosningavöku Guðna á Grand hóteli. mbl.is/Eggert

Hann á afmæli í dag

Hann sagðist ætla að leggja sig allan fram við að verða það sameiningarafl sem þjóðin þarf og á skilið. Hann muni leggja sig fram við að gera það sem hann lofaði: Hlusta á fólkið, hitta fólkið, sætta ólík sjónarmið og leiða þjóðina fram á veg. 

Sagðist hann verða ævinlega þakklátur fyrir það verkefni sem honum hefur verið falið. „En nú bíður mín mikið verkefni fari sem horfir. Ég ætla að verða traustsins verður.“

Eftir ræðu Guðna var sunginn fyrir hann afmælissöngur þar sem 48. afmælisdagur hans gekk í garð um miðnætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert