Í tíunda sinn yfir Grænlandsjökul

„Það er viss áfangi fyrir okkur að hafa núna verið að fara þarna yfir í tíunda skiptið,“ segir Björgvin Hilmarsson, umsjónarmaður leiðangra hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem kláruðu sinn tíunda leiðangur yfir Grænlandsjökul núna í maí.

Leiðangurinn tekur um þrjátíu daga og var fyrst farinn af Íslenskum fjallaleiðsögumönnum árið 1996. Að sögn Björgvins eru hóparnir yfirleitt fámennir enda þarf fólk að vera vant krefjandi útivist til að fara í leiðangur sem þennan auk þess sem hann kostar sitt. „Við biðjum fólk um að segja okkur hver reynsla þess er og sýna fram á að það hafi til dæmis gisti úti að vetri til og sé í góðu líkamlegu formi fyrir þetta,“ segir Björgvin.

Í ferðina yfir Grænlandsjökul fóru fjórir fjallgöngumenn með Maxime Poncet, …
Í ferðina yfir Grænlandsjökul fóru fjórir fjallgöngumenn með Maxime Poncet, leiðangursstjóra. Ljósmynd/Maxime Poncet

Hann segir ferðalagið langt og strangt og taki töluvert á bæði líkamlega og andlega. „Fólk þarf að búa með öðru fólki í mánuð við erfiðar aðstæður. Það þarf að gista í tjöldum og draga á eftir sér allan búnað á púlkum sem geta verið allt að níutíu kíló við upphaf ferðar.“ Á púlkunum er geymdur alls kyns þurrmatur, bensín, eldunarbúnaður, tjöld og fleira sem þarf síðan að taka upp á hverju kvöldi til að setja upp tjaldbúðir.

Maxime Poncet var leiðangursstjóri yfir Grænlandsjökul.
Maxime Poncet var leiðangursstjóri yfir Grænlandsjökul. Ljósmynd/Maxime Poncet

30 gráða frost 

Ferðin hefst á Austur-Grænlandi og gengið er í vestur, um 540 kílómetra. Þetta er sama átt og Fridtjov Nansen fór árið 1888 en hann var fyrstur til að fara yfir jökulinn. Hitastigið á jöklinum getur verið afar misjafnt. „Þeir voru í töluverðum hita, sól og blíðu, til að byrja með núna síðast en síðan fór að hvessa og kólna. Á daginn var hátt í þrjátíu gráða frost sem jókst svo með nóttinni,“ segir Björgvin. Síðasti leiðangur gekk vel og tafðist aldrei vegna veðurs.

Ferðin yfir Grænlandsjökul.
Ferðin yfir Grænlandsjökul. Skjáskot af Google maps

„Þetta er erfitt fyrst því þá er gengið upp í mót og snjórinn var þungur núna austan megin. Síðan eru síðustu 100 kílómetrarnir vestan megin mest megnis bara hólar, hæðir og sprungur en sá kafli er alltaf að verða meira og meira vandamál og ekki síst vegna bráðnunar sem veldur mikilli vatnssöfnun,“ segir Björgvin. Hann segir marga kjósa að byrja vestan megin á jöklinum en stefna Íslenskra fjallaleiðsögumanna er að fara yfir jökulinn frá austri til vesturs eins og Nansen gerði í upphafi.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn eru einnig með ferðir á Gunnbjörnsfjall sem er hæsta fjall Grænlands en auk þess hafa ferðir yfir Vatnajökul notið vinsælda. Ferðin um Vatnajökul tekur um níu daga og er góður undirbúningur fyrir þá sem ætla sér að fara yfir Grænlandsjökul.

Á hverju kvöldi þarf að setja upp nýjar tjaldbúðir í …
Á hverju kvöldi þarf að setja upp nýjar tjaldbúðir í Grænlandsleiðangrinum. Ljósmynd/Maxime Poncet

Í samstarfi við frægustu háfjallaferðaskrifstofu heims

Fyrir nokkrum árum hófst samstarf milli Íslenskra fjallaleiðsögumanna og háfjallaferðaskrifstofunnar Adventure Consultants í Nýja-Sjálandi. Adventure Consultants er ein frægasta háfjallaferðaskrifstofa í heimi og var önnur af þeim sem komu við sögu í einu mannskæðasta slysi á Everest árið 1996 sem fjallað var um í mynd Baltasar Kormáks Baltasarssonar.

„Það að Adventure Consultants treysti okkur fyrir að keyra þessa leiðangra segir ýmislegt, en það voru til dæmis þrír kúnnar frá þeim í leiðangrinum yfir Grænlandsjökul,“ segir Björgvin. Hann segir Adventure Consultants sérfræðinga í háfjallaferðum en að skrifstofan hafi minni reynslu af skíðaleiðöngrum en þar komi einmitt Íslenskir fjallaleiðsögumenn sterkir inn.

Eldunaraðstaðan í tjaldbúðunum.
Eldunaraðstaðan í tjaldbúðunum. Ljósmynd/Maxime Poncet

Þá hafa leiðsögumenn frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum farið fyrir leiðöngrum Adventure Consultants á suðurpólinn. „Þeir eru í raun að sækja í kunnáttu og reynslu Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Við erum ánægð með það að þau treysti okkur enda höfum við hvað mesta reynslu á þessu sviði. Við höfum átt farsælt samstarf og ég sé ekki annað en að það eigi eftir að halda áfram,“ segir Björgvin að lokum.

Þessi mynd er úr ferð Fjallaleiðsögumanna yfir Vatnajökul.
Þessi mynd er úr ferð Fjallaleiðsögumanna yfir Vatnajökul. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert