Kötturinn Frans ánægðastur með niðurstöðuna

Davíð ávarpaði stuðningsmenn sína um miðnætti.
Davíð ávarpaði stuðningsmenn sína um miðnætti. mbl.is/Árni Sæberg

Davíð Oddsson ávarpaði stuðningmenn sína í kosningamiðstöðinni á Grensásvegi um miðnætti.

Davíð þakkaði fyrir sýnda biðlund á þessari sigurstund lýðræðisins. „Ég er afskaplega ánægður og þakklátur fyrir að hafa skellt mér í þennan slag. Ég er ánægður með hvað margir studdu við bakið á mér hvarvetna og sýndu mér alúð.“

Davíð gantaðist með að aðalniðurstaða kosninganna væri hversu mikið ljúfmenni hann væri, og vísaði þá í umræður sem hann átti í sjónvarpssal ásamt Andra Snæ Magnasyni, Höllu Tómasdóttur og Guðna Th. Jóhannessyni, meðframbjóðendum sínum, fyrr í kvöld.

„Það var niðurstaða kosninganna að ég væri ljúfmenni, meira að segja Ástríður er farin að trúa því.“ Davíð talaði jafnframt um kynni sín af öðrum frambjóðendum. „Ég hef kynnst Andra Snæ og ég verð að viðurkenna að hann er meira ljúfmenni en ég hélt að hann væri.“

Davíð nefndi að Ísland hefði skilað af sér nýjum forseta, Guðna Th. Jóhannessyni. „Það er mikilvægt að honum farnist vel í starfi.“ 

Davíð ræddi framtíðina og sagði að sig grunaði að Ástríður, eiginkona sín, væri glöð með niðurstöðuna. „Það þarf ekki að verða rask á fjölskyldunni, þótt hún hafi stutt karlinn vel í baráttunni. Sá eini sem var með ólund á heimilinu út af þessu framboðsbrölti var Frans, kötturinn, því hann þekkir enga ketti á Álftanesi en nóg í Skerjafirði. Ég er viss um að hann mun mala svo ótt og títt þegar ég kem heim í kvöld að það mun mælast á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. En að öllu gamni slepptu þá er dásamlegt að hafa tekið þátt í þessari kosningarbaráttu.“

Davíð Oddsson ásamt eiginkonu sinni, Ástríði Thorarensen.
Davíð Oddsson ásamt eiginkonu sinni, Ástríði Thorarensen. mbl.is/Freyja Gylfa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert