Kynjaskipting í þágu barnanna

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Forsvarsmenn Orkumótsins í Vestmannaeyjum hafa sent frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar um að stúlka hafi ekki fengið að taka þátt í leik landsliðs og pressuliðs á föstudagskvöldið. Stúlkan var tilnefnd af þjálfara Gróttu en því vali var hafnað. Fréttatilkynningin frá forsvarsmönnum Orkumótsins fer hér að neðan:

„Á föstudaginn var átti hvert félag að tilnefna leikmann í landslið/pressulið fyrir leikina sem spilaðir voru þá um kvöldið. Eitt félagið tilnefndi stúlku í liðið og fékk viðkomandi félag upplýsingar um að það gengi ekki þar sem Orkumótið væri drengjamót.

Undanfarin ár hafa verið gerðar undantekningar fyrir lítil félög á landsbyggðinni, þar sem ekki er stúlknalið í þeirra flokki, og stúlkum leyfð þátttaka í þeim liðum. Vonumst við til að geta viðhaldið því fyrirkomulagi því það er vilji ÍBV að sem flestir krakkar fái að upplifa það að spila á stórmóti sem þessu.

Fyrir rétt rúmum tveimur vikum var TM-mótið í Eyjum en á því móti er einnig spilaður leikur á milli landsliðs og pressuliðs. Þessi iðkandi mun vonandi fá tækifæri til að spila slíkan leik þegar og ef hún mætir á TM-mótið í Eyjum í 5. flokki stúlkna.

Ef knattspyrnuhreyfingin telur það íþróttinni og iðkendum til framdráttar að hætta að spila í kynjaskiptum liðum á mótum á borð við Orkumót og TM-mót þá mun ÍBV íþróttafélag taka fyrirkomulag þessara móta til endurskoðunar. Ef ekki þá munum við halda áfram að hafa þessi mót okkar kynjaskipt í samræmi við stefnu KSÍ – í þeirri von að þannig séum við að mæta þörfum bæði drengja og stúlkna.

Björgvin Eyjólfsson f.h. Orkumótsnefndar og
Dóra Björk framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags

Frétt mbl.is: Mátti ekki tilnefna stelpu í líðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert