Eigum við að skinna saman upp Heklu?

Bongóblíða. Halldóra, Hildur Eygló og Aron Dagur með bera handleggi.
Bongóblíða. Halldóra, Hildur Eygló og Aron Dagur með bera handleggi. Ljósmynd/Aron Dagur Beck

Meðal fjallaskíðafólks er oft talað um að skinna saman, þegar ætlunin er að bregða sér á skíði þar sem engin er lyftan og láta skinn undir skíðin til að geta gengið upp. Níu manna hópur skellti sér í fjallaskíðaferð á Heklu í byrjun júní í blíðskaparveðri og með í för var 14 ára unglingur sem skemmti sér vel.

Við erum hópur góðra vina sem tengjumst sem foreldrar í skíðadeild Víkings og ÍR. Það er ákveðinn hópur í kringum þetta sem hefur þróast og stundar saman fjallaskíðamennskuna. Við skíðum oft í brekkunum í nágrenni skíðasvæðisins á meðan krakkarnir eru á æfingum,“ segir Hallgrímur Beck, einn úr níu manna hópi sem fór í byrjun þessa mánaðar í vel heppnaða fjallaskíðaferð á Heklu. Eins og landsmenn flestir vita er engin skíðalyfta á Heklu svo ganga þarf upp á skíðunum og krefst það þó nokkurs erfiðis. Hallgrímur segir að þau hafi ekið upp að snjólínu á Heklu og þar settu þau sérstök skinn undir fjallaskíðin og gengu norðan megin upp, þar sem er mestur snjór.

„Bindingarnar eru yfirleitt þrívirkar, þannig að þegar maður stígur niður, þá er hallinn á fætinum um það bil eðlilegur. Maður losar festingarnar í hælinn og það eru misháar stillingar undir honum, eftir því hvað maður er að ganga upp mikinn bratta.“

Ganga líka yfir hraunið

Hallgrímur segir að allur dagurinn hafi farið í þetta ferðalag með keyrslunni fram og til baka austur að Heklu úr bænum.

„Gangan upp tók um það bil fjórar klukkustundir með einni nestispásu og nokkrum útsýnisstoppum. Það var frábært að staldra við og horfa á fjöllin í kring og umhverfið allt, við vorum heppin hvað við fengum fallegt og bjart veður. Skíðarennslið niður og smá ganga yfir hraun, tók ekki nema tæpa klukkustund. Hækkunin var rétt um þúsund metrar,“ segir Hallgrímur og bætir við að hamborgarar hafi verið settir á grillið í lokin niðri við snjólínuna. „Fólk var sannarlega búið að vinna fyrir þeim, allir voru glorhungraðir eftir frábæra útiveru.“

Ekki á sprungusvæðum

En hvernig velja þau staðinn til að renna sér niður? Er hægt að fara niður hvar sem er í hlíðum Heklu?

„Já, svo framarlega sem það er snjór, en auðvitað má ekki fara alveg hvar sem er, til dæmis ekki á svæði sem eru þekkt fyrir að vera mikið sprungusvæði. Færið í ferðinni okkar var vissulega ekki eins og á skíðasvæðum þar sem eru troðnar skíðabrautir og á þessum árstíma er bráðnun, það var tölvuverður hiti þennan dag og snjórinn verður þyngri fyrir vikið. Það voru ekki allir jafn vanir skíðamenn í hópnum okkar, ég held að konan mín hafi notið uppgöngunnar meira en niðurferðarinnar. Þeir sem eru góðir skíðamenn njóta þess að skíða niður, sama hvað það er bratt.“

Hallgrímur segir besta tímann til fjallaskíðamennsku vera í apríl, maí og fram í júní. „Eftir því sem líður lengra á þá þarf að fara lengra inn á hálendið. En það er hægt að skíða í Kerlingarfjöllum allt sumarið á fjallaskíðum og sama er að segja um jöklana, svo framarlega sem fólk er bundið saman í línu.“

Ekki heima í hræðslukasti

Hallgrímur segir að þau hafi verið átta fullorðin í hópnum og einn 14 ára drengur, Aron Dagur, sonur hans og Hildar Einarsdóttur konu hans.

„Hann stóð sig vel, þetta er vissulega mikið á fótinn og hann fann alveg fyrir þessu, en hann er í fanta góðu formi, hann er Íslandsmeistari í þriðja þrepi í fimleikum og æfði áður skíði hjá Víking. Það er í raun auðveldara að fara þarna upp á fjallaskíðum heldur en á gönguskóm, því snjórinn var nokkuð blautur og kosturinn við að ganga á skíðunum er sá að þá sekkur maður lítið.“

Hann segir þau fjölskylduna vera tiltölulega ný í fjallaskíðasportinu en þau njóti þess virkilega.

„Þetta er æðislegt, af því allir geta farið saman, þetta er alveg fullkomið fjölskyldusport. Við eigum bara eftir að koma yngstu dótturinni á bragðið, hún er tíu ára. Hún æfir skíði rétt eins og sonurinn, svo þetta verður ekkert mál. Það er gaman og gott fyrir krakka að fara í fjallaskíðaferðir, það herðir þau að takast á við veðrið. En þetta er rétt eins og með fjallgöngur, krakkar þurfa að hafa ákveðinn þroska til að takast á við þetta. Ég veit um krakka alveg niður í sjö ára sem fara á fjallaskíði, en þau fara auðvitað ekki í langar göngur.“

En voru þau ekkert hrædd um að Hekla tæki upp á því að gjósa á meðan þau voru í hlíðum hennar? Hún er jú virkt eldfjall og hefur verið að bæra á sér.

„Vissulega vorum við okkur meðvituð um að Hekla væri klár í að gjósa og að fyrirvarinn gæti orðið stuttur til að koma sér í burtu. En það veit í raun enginn hvort hún gýs í dag eða eftir tíu ár. Við fengum aðvaranir úr nokkrum áttum, meðal annars frá foreldrum okkar, en það þýðir ekkert að sitja heima í hræðslukasti, þá gerist aldrei neitt.“

Fjallaskíðasport sameinar fjallamennsku og skíðasport

Æ fleiri stunda fjallaskíðasport og að undanförnu hafa margir komið sér upp búnaði til þess. Fjallaskíðamennska lengir skíðatímabilið og sameinar fjallamennsku og skíðasport. Auðveldara er að ganga á skíðum með skinnum á fjöll sem eru þakin snjó, heldur en á gönguskóm. Fjallaskíðamennska tekur vel á þrekið líkt og fjallganga, því er það frábær kostur fyrir þá sem vilja meiri hreyfingu í skíðasportinu og vilja fá púlsinn upp. Í raun er hægt að velja hvaða brekku sem er til að iðka fjallaskíðamennsku, hver velur brekku við sitt hæfi. Ætíð þarf þó að hafa varann á, t.d. með mögulega hættu á snjóflóðum, og gott er að kynna sér hættumerki í snjólögum. Að sjálfsögðu á alltaf að láta vita af ferðum sínum.

Ef gengið er á jökli á fjallaskíðum þarf að gera það í hópi og línu, og helst með leiðsögn, því nauðsynlegt er að þekkja svæðið vel með tilliti til sprungusvæða. Þá þarf að vera með ísaxir, skóflur og brodda.

Aron Dagur á góðri ferð á niðurleiðinni sem tók um …
Aron Dagur á góðri ferð á niðurleiðinni sem tók um 50 mínútur. Ljósmyndir/Aron Dagur Beck
Á uppleið. Jón Örvar og Aron Dagur leiða hópinn á …
Á uppleið. Jón Örvar og Aron Dagur leiða hópinn á leiðinni upp á Heklu með skinn undir skíðunum. Ljósmynd/Aron Dagur Beck
Gott að setjast niður og gæða sér á góðgæti úr …
Gott að setjast niður og gæða sér á góðgæti úr bakpokanum. Ljósmynd/Aron Dagur Beck
Gísli og Jón Örvar komnir í smá bratta, þá er …
Gísli og Jón Örvar komnir í smá bratta, þá er ágætt að skera brekkuna.
Fjallaskíðasport sameinar fjallamennsku og skíðasport
Fjallaskíðasport sameinar fjallamennsku og skíðasport
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert