Fjórir risaskjáir í Færeyjum

Þórshöfn í Færeyjum, þar sem mikill stuðningur er við íslenska …
Þórshöfn í Færeyjum, þar sem mikill stuðningur er við íslenska liðið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Færeyingar sýna íslenska landsliðinu á Evrópumótinu mikinn áhuga og munu frændur okkar í Færeyjum sýna leikinn í kvöld á a.m.k. fjórum risaskjáum. Utan skjásins í Vágsbotni í Þórshöfn, þar sem aðrir leikir hafa verið sýndir, hafa nú verið settir upp risaskjáir í Götu, Runavík og Oyrarbakka.

„Pinkutjóðin móti yvirvøldini“

Dimmalætting birti í dag umfjöllun um leikinn á vefsíðu sinni, undir fyrirsögninni „Brexit og toskakriggj í Nice“. Segir þar að 30.000 Íslendingar hafi verið „rýmdir frá hóttandi Heklu til sólstrendurnar við Miðjarðarhavið“ og að í dag sé stærsti dagur íslenskrar knattspyrnusögu. Gylfi, Eiður Smári, Jón Daði og aðrir „norðurlendskir víkingar“ muni nú takast á við stórstjörnur Englendinga, sem séu hver annarri þekktari og á meðal stærstu íþróttastjarna heims.

Þá minnist Dimmalætting þorskastríðanna og segir að „grótharði og vikaleysi viljin hjá íslendingum“ verði ekki minni nú en í stríðunum, sem mæti nú ríkum einstaklingum úr stærstu félögum Evrópu.

Borið er saman mataræði leikmanna liðanna: „Yndismaturin hjá Wayne Roony er spaghetti Bolognese, Jamie Wardy elskar fish’n chips og Daniel Sturridge fær ikki nóg mikið av ostasandwich“, en Íslendingar borða lunda, hval og hákarl, „sum má gravast niður fyri at vera etandi“. Á meðan þeir ensku fari bara inn í enn einn fótboltaleikinn, fari Íslendingar í stríð með alla sína sögu, menningu og liðsheild í farteskinu. Í kvöld sé pressan öll á enska liðinu, sem hefur svo oft brugðist þjóð sinni, sem fann upp leikinn, á fótboltavellinum.

Færeyingar og Íslendinga styðja hvorir aðra

Íslendingar eru sagðir ákaflega þakklátir þeim fyrir stuðninginn frá Færeyjum, en fjöldi Færeyinga hefur komið saman við risaskjáinn í Þórshöfn og stutt íslenska liðið í leikjum þess í keppninni til þessa. Færeyingum finnst líka að þeirra landslið sé að spila. „Í stovum og á torgum hittast føroyingar, hava íslendsk og føroysk fløgg, og teir reisast og rópa, tá ið bólturin fer í málið.“

Segir Dimmalætting að nóg sé að segja: „Ég eri færeyingur“ á Íslandi í dag, til að fá afslætti, ókeypis leigubílaför og vera hleypt fram fyrir í biðröðum.

Líkt áður sagði verður leikurinn í kvöld sýndur á risaskjáum víða í Færeyjum, auk þess sem færeyska ríkissjónvarpið, Kringvarpið, sýnir beint frá leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert