Hjálmurinn bjargaði Sigmari

Sigmar Breki Sigurðsson.
Sigmar Breki Sigurðsson. Ljósmynd/Gerða Sigmarsdóttir

Sigmar Breki Sigurðsson, drengur á þrettánda ári, sæti líklega ekki brosandi í sjúkrarúmi sínu á Landspítalanum í dag ef hann hefði ekki verið með hjálm á höfðinu þegar hann lenti fyrir bíl í gær. Fjórir hryggjarliðir brotnuðu og hann hefur fundið fyrir höfuðverk í morgun. Ekki þarf þó að skoða brotinn og beyglaðan hjálm hans lengi til að átta sig á því að mun verr hefði getað farið.

„Hann var sem betur fer með hjálm,“ segir Gerða Sigmarsdóttir, móðir Sigmars Breka, í samtali við mbl.is. Hún ítrekar að um slys hafi verið að ræða og hefur hún þegar rætt við bílstjóra bílsins. „Hann fer yfir húddið á bílnum, lendir í götunni og missir meðvitund.“

Þegar Sigmar Breki kom til meðvitundar á ný gat hann sagt þeim sem komu að honum símanúmer móður sinnar. Var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann fór í rannsóknir. Í ljós kom að fjórir hryggjarliðir eru brotnir en þeir eru ótilfærðir og stöðugir, að sögn Gerðu. Hann dvaldi á spítalanum í nótt og er brattur, þrátt fyrir töluverðan höfuðverk í morgun.

Hér má sjá hjálminn, brotinn og beyglaðan.
Hér má sjá hjálminn, brotinn og beyglaðan.

„Það væri aldeilis önnur staða ef hjálmurinn hefði ekki verið á höfðinu. Viljið þið, elsku vinir, alltaf nota hjálm þegar þið setjist upp á hjólið. Slysin gera ekki boð á undan sér,“ skrifaði Gerða á Facebook-síðu sína. Hún segir í samtali við blaðamann mbl.is að miðað við ástand hjálmsins leiki enginn vafi á því að hann hafi bjargað miklu í þetta skiptið.

Sigmar Breki hefur verið duglegur að vera með hjálm í gegnum tíðina og nú þarf hann nýjan áður en hann getur hjólað af stað á ný. „Hann fær nýjan hjálm, jafnvel þrjá,“ segir Gerða að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert