Laugarneskirkja opin hælisleitendum

Laugarneskirkja
Laugarneskirkja mbl.is/Brynjar Gauti

Laugarneskirkja verður í nótt opin tveimur hælisleitendum frá Írak, Alir Nasir og Majed, en þá stendur til að senda báða til Noregs. Mun lögreglan þurfa að sækja þá upp að altarinu.

Í fréttatilkynningu frá Laugarneskirkju segir að kirkjan verði mönnunum opin í nótt „í von um að fornar venjur um kirkjugrið geti reynst tæki til að knýja yfirvöld til að taka ábyrga, efnislega afstöðu til málefna einstakra hælisleitenda.

Með því að standa í kirkjurýminu með Ali Nasir og Majed, þegar lögreglan sækir þá, viljum við tjá samstöðu með þeim og áhyggjur okkar yfir aðgerðaleysi íslenskra yfirvalda í málefnum einstakra hælisleitenda“, að því er segir í tilkynningunni.

Kirkjan verður opnuð klukkan fjögur og þau sem vilja mega standa við altarið, lesa úr ritningunni, fara með bænir eða tala saman.

„Þegar lögreglan kemur að sækja mennina til að vísa þeim úr landi, sækir hún þá upp til altarisins. Lögreglunni verður mætt með virðingu og án viðspyrnu og verður henni gerð grein fyrir því hvaða merkingu þessi tiltekni staður hefur þegar kemur að mannhelgi og griðum,“ segir í tilkynningunni, en þar er jafnframt bent á að fyrr á öldum þekktist að um kirkjur og helga staði giltu lög sem tryggðu friðhelgi og grið þeim sem þar leituðu skjóls gegn framgöngu valdhafa.

Einnig kemur fram í tilkynningunni að þrátt fyrir alþjóðlegt samkomulag um að senda flóttafólk ekki til baka til heimalands síns, þá sendi Noregur flóttafólk frá suðurhluta Íraks til baka, með þeim rökstuðningi að þeim sé ekki hætta búin þar. Sú stefna sé vel kunn Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert