Sendu mikið magn rakvélablaða úr landi

Mennirnir dvelja í síbrotagæslu á Litla-Hrauni.
Mennirnir dvelja í síbrotagæslu á Litla-Hrauni. Ómar Óskarsson

Mennirnir tveir, sem grunaðir eru um umfangsmikinn þjófnað hér á landi, sendu mikið magn rakvélablaða úr landi með pósti. Lögreglu hefur tekist að hafa uppi á nokkrum sendingum en blöðin sem hafa skilað sér eru margra milljóna króna virði.

Annar mannanna er eftirlýstur í Kanada fyrir stórfelldan þjófnað en þeir eru báðir frá Evrópu.

Mennirnir voru handteknir í byrjun þessa mánaðar. Í kjölfarið gerði lögregla húsleit í húsnæði sem mennirnir höfðu til umráða og fannst þar mikið magn af þýfi. Til að byrja með voru þeir í einangrun en núna sæta þeir síbrotagæslu á Litla-Hrauni.

Í sendingunum var ekki aðeins að finna rakvélablöð, heldur nokkuð magn af skartgripum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ljóst að þeir hafa stolið fleiri skartgripum en mögulega tekist að koma þeim úr landi.

Rannsókn málsins stendur enn yfir og ekki liggur fyrir hvenær henni mun ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert