Stöðvuðu drukkinn rútubílstjóra

Maðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum. Mynd úr …
Maðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum. Mynd úr safni. Styrmir Kári

Umferðardeild lögreglunnar á Suðurlandi hafði afskipti af ökumanni hópferðabifreiðar skömmu fyrir hádegi á fimmtudag í síðustu viku þar sem hann var á leið austur Suðurlandsveg við Lögberg.

Í samræðum við ökumanninn fundu lögreglumenn áfengisþef leggja frá vitum hans. Við forskoðun mældist áfengi í blóði hans meira en góðu hófi gegndi. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum. Í bifreiðinni voru 18 farþegar.

Um helgina var farið inn í bifreið á bílastæði á Höfn og bakpoka stolið úr henni. Í pokanum voru ýmsir munir spænsks ferðamanns. Bakpokinn fannst skömmu síðar með öllu því sem í honum hafði verið. Ekki er vitað hver þjófurinn var. 

Tveir karlmenn voru handteknir á tjaldsvæðinu á Höfn um helgina grunaðir um að hafa í vörslum sínum fíkniefni. Við leit í tjaldi þeirra fundust rúm 20 grömm af kannabis. Þeir viðurkenndu að eiga efnin. Mennirnir voru látnir lausir eftir skýrslutöku.

Fólksflutningabifreið með 13 manns valt á hliðina við Langasjó um miðjan dag í gær. Tveir farþeganna slösuðust minni háttar.

Björgunarsveitarmenn fóru á staðinn ásamt lögreglu og fluttu fólkið á Kirkjubæjarklaustur þar sem fjöldahjálparstöð var opnuð og hlúð var að fólkinu. Leiðin að Langasjó er lokuð og þar eiga ökutæki ekki að vera á ferð á þessum tíma. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert