Dýrasti leikur í sögu Íslenskra getrauna

Ætli margir tipparar hafi verið á Arnarhóli í gær?
Ætli margir tipparar hafi verið á Arnarhóli í gær? AFP

Í upphafi símtals kvartar Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna, glettnislega yfir því að blaðamaður mbl.is spyrji ekki út í heilsu hans.

Tilefni símtalsins er nefnilega tíst hans um að fyrirtækið hafi tapað milljónum á sigri íslenska landsliðsins gegn Englendingum í gærkvöldi, en Stefán tekur þó sjálfur fram í tístinu að honum líði ótrúlega vel.

„Þetta er dýrasti leikur í sögu Íslenskra getrauna,“ segir Stefán. 

„Það var 368 prósent útborgunarhlutfall. Við, líkt og önnur getraunafyrirtæki í heiminum, töldum Englendingana mun sigurstranglegri í leiknum í gær en tippararnir á Lengjunni voru ekki á sama máli og tippuðu langflestir á sigur Íslands.“

Eins og alþjóð veit höfðu tippararnir rétt fyrir sér og þó að Stefán sé ekki tilbúinn til að gefa upp nákvæma upphæð þá endurtekur hann að fyrirtækið hafi aldrei greitt út svo háa upphæð og hún sé upp á „milljónir á milljónir ofan“.

Stefán er ekki ósáttur við úrslitin þótt milljónir hafi tapast.
Stefán er ekki ósáttur við úrslitin þótt milljónir hafi tapast. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Hann vill heldur ekki gefa upp hver hæsta staka vinningsupphæðin er en segir tippara almennt veðja allt frá 100 krónum og upp í 15.000, en á því sé þó allur gangur. 

„Við vorum að skrifa blað í íþróttasögunni þannig að maður getur ekki verið í fýlu,“ segir hann og hlær. „Svona leikur verður líka að fá að næra sig. Það væri ekkert gaman að vera í þessum bransa ef allir myndu tapa.“

Stefán segir Íslendinga hafa verið mjög getspaka í keppninni hingað til og að á Lengjunni hafi margir tippað rétt á ótrúlega marga leiki. „Svo við erum klár í þessu eins og öllu öðru,“ segir hann kíminn. 

„Menn nota tilfinningarnar mikið þegar þeir eru að tippa en auðvitað er þetta líka rökhyggja. Við sjáum það í mörgum öðrum leikjum að menn eru klókir og búnir að reikna þetta út. Taktíkin sem íslenska liðið hefur verið að spila er greinilega að skila því að fólk treystir á liðið núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert