Amnesty gagnrýnir flóttamannastefnu ESB

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Evrópa stefnir óðum í að kollsigla alþjóðlega flóttamannakerfinu að sögn Íslandsdeildar Amnesty International. Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla gagnrýnir Amnesty International Evrópusambandið harðlega fyrir aðgerðir sambandsins vegna flóttamannavandans.

Er þar sérstaklega vísað til samningsins sem gerður var fyrr á árinu við Tyrki til að koma böndum á flóttamannastrauminn til Evrópu.

„Nýgerður samningur sambandsins við Tyrkland um endursendingu á flóttafólki til landsins, á þeim fölsku forsendum að Tyrkland sé öruggt land, er skýrt dæmi um að Evrópa stefnir óðum í að kollsigla alþjóðlega flóttamannakerfinu,” segir í tilkynningunni.

Enn fremur kemur fram að tyrknesk stjórnvöld hafi gerst sek um að senda flóttafólk aftur til upprunalanda þar sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. „Vitnisburðir sem Amnesty International hefur tekið saman varpa ljósi á hvernig tyrknesk yfirvöld hafa safnað fólki saman sem flúið hefur stríðsástandið í Sýrlandi, þar á meðal þunguðum konum og börnum, og sent það til baka til heimalandsins - aðgerðir sem standast hvorki tyrknesk lög né alþjóðalög,” segir í tilkynningu Amnesty.

„Flóttafólk annars staðar frá hefur mátt þola svipaða meðferð. Tyrkland vísaði 30 afgönskum hælisleitendum úr landi aðeins fáum klukkustundum eftir að Tyrkir skrifuðu undir umræddan samning, þrátt fyrir staðhæfingar hælisleitendanna um að þeir yrðu fyrir árásum Talibana ef þeir sneru aftur til heimalandsins.”

Fleiri sýrlenskir flóttamenn skotnir til bana á landamærunum

Amnesty bendir á að síðastliðna mánuði hafi tyrknesk yfirvöld lokað landamærum sínum fyrir öllum nema alvarlega særðu sýrlensku flóttafólki og dæmum hefur fjölgað um að skotið hafi verið á sýrlenskt flóttafólk og það drepið á leið sinni yfir landamærin.

„Þá hefur Amnesty International skráð tilvik þar sem flóttafólki er haldið í einangrun í Tyrklandi án lögfræðiaðstoðar, málsvara eða möguleika á að eiga samskipti við umheiminn. Ekki er hér allt upptalið þegar rýnt er í afleiðingar þessa fráleita samnings Evrópusambandsins og Tyrklands,“ segir í tilkynningunni. 

Kemur þar einnig fram að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og félagasamtökum sé meinaður aðgangur að flóttamannabúðum en þar á meðal eru flóttamenn sem hafa verið sendir til baka frá Grikklandi á grundvelli samningsins.

„Þegar óháðum aðilum er meinað að kanna aðstæður aukast líkur á að mannréttindabrot eigi sér stað á tyrkneskum svæðum þar sem flóttafólk er kyrrsett. Óháð eftirlit er nauðsynlegt til þess að tryggja að mannréttindi flóttafólks, sem vísað er frá Grikklandi yfir til Tyrklands eða sem kemur frá Sýrlandi, séu virt að fullu,“ segir í tilkynningunni frá Amnesty.

„Í fullkominni sjálfblekkingu um ágæti þessa samnings hyggst Evrópusambandið gera áþekka samninga við ríki eins og Alsír, Erítreu, Eþíópíu, Jórdaníu, Líbanon, Nígeríu, Malí, Marokkó og Senegal. Á fundi Evrópuráðsins dagana 28. og 29. júní munu þjóðarleiðtogar einblína á nýjan samstarfsramma við lönd utan álfunnar sem lýtur að því hvernig stjórna megi flæði flóttafólks til Evrópu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögu að umræddum samstarfsramma þann 7. júní síðastliðinn. Kjarni tillögunnar byggir á því að samstarfið á milli Evrópusambandsins og samstarfsríkja felist í getu hinna síðarnefndu til að koma í veg fyrir að óskráðir innflytjendur flykkist til Evrópu og til að senda hælisleitendur aftur til baka.

Í þessum tilgangi er nýr samstarfsrammi kynntur mögulegum samstarfsríkjum en hann byggir á bæði jákvæðum og neikvæðum hvötum, þeirra á meðal á vettvangi viðskipta og þróunar. Enda þótt Amnesty International sé hlynnt þörfinni á auknu fjármagni og annarri aðstoð til ríkja þar sem margt flóttafólk er niðurkomið telja samtökin að alvarlegir brestir séu á þeirri nálgun sem sett er fram í tillögu Framkvæmdastjórnarinnar,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert