Brutu ekki lög KSÍ

Frá Pæjumóti í Vestmannaeyjum.
Frá Pæjumóti í Vestmannaeyjum.

Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður KSÍ og formaður starfshóps um framkvæmd jafnréttisáætlunar, segist harma það að stúlku hafi verið meinað að taka þátt í svokölluðum landsleik, á Orkumóti ÍBV í Vestmannaeyjum, en að KSÍ geti lítið aðhafst.

Orkumótið er drengjamót 6. flokks í knattspyrnu en samkvæmt reglum KSÍ er félögum heimilt að leyfa stúlkum að taka þátt í keppni með drengjaliðum í 3. aldursflokki og yngri. Á mótinu tilnefnir hvert félag einn leikmann til að spila í fyrrnefndum landsleik, í landsliði eða pressuliði, og tilnefndi Pétur Már Harðarson, þjálfari hjá Gróttu, stúlku sem hann segir hafa skarað fram úr á fyrstu leikjum mótsins. Mótshöldurum hafi ekki þótt hún gjaldgeng sökum kyns síns.

Frétt mbl.is: Mátti ekki tilnefna stelpu í liðið

„Þetta er ekki mót á vegum KSÍ. Við getum náttúrlega ekki skipt okkur af því hvað gerist þarna en auðvitað er leiðinlegt að svona atvik komi upp,“ segir Guðrún. Hún útskýrir að þó spilað sé eftir knattspyrnulögunum hafi mótið verið á vegum ÍBV og með reglum mótshaldara.

„Ég get alveg sagt það að mér finnst þetta leiðinlegt og harma að þetta hafi komið upp en þeir hafa í raun ekki brotið nein lög af því að þetta er mót sem þeir halda.“

Guðrún er stödd í Nice þar sem mikið mæðir á KSÍ. Hún segir þó að málið verði auðvitað skoðað eins og öll mál sem koma inn á borð sambandsins. Engu að síður, eins og áður segir, hafi mótið verið á vegum ÍBV og því sé lítið sem KSÍ geti gert.

Frétt mbl.is: Kynjaskipting í þágu barnanna

Svo það sé tekið fram þá gildir fyrrnefnd regla um þátttöku stúlkna í drengjaflokkum ekki í hina áttina. Drengir mega ekki spila með stúlknaflokkum.

„Kvennaknattspyrna er mikið yngri grein en knattspyrna drengja og oft og tíðum voru fáar stúlkur sem æfðu knattspyrnu og fengu þá að spila með strákunum í keppni,“ segir Guðrún. „Það eru skiptar skoðanir um hvort þetta eigi að vera svona eða ekki en svona eru reglugerðirnar í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert