Dregnir út úr kirkjunni í nótt

Fyrir utan Laugarneskirkju á sjötta tímanum í morgun.
Fyrir utan Laugarneskirkju á sjötta tímanum í morgun. Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir

Írösku hælisleitendurnir Ali og Majeh voru dregnir út úr Laugarneskirkju á sjötta tímanum í nótt. Vitað var að þeir yrðu fluttir úr landi og ákváðu sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur kirkjunnar, og fleiri að láta reyna á kirkjugrið sem stundum reyndi á fyrr á öldum, þ.e. að sá sem leitar skjóls í kirkju njóti friðhelgi á meðan hann dvelur þar.

Mál mannanna voru ekki tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar og eru þeir nú á leið til Noregs. Þaðan komu þeir til Íslands fyrir nokkrum mánuðum.

Kristín Þórunn segir í samtali við mbl.is að jafnvel þó að grið kirkjunnar hafi ekki komið í veg fyrir brottflutning Ali og Majeh í nótt verði þetta reynt aftur. „Fyrst og fremst viiljum við fá samtalið og leggja okkar af mörkum til að skapa þrýsting til að breyta þessum hlutum,“ segir hún.

Grípa til sinna ráða hlýði fólk ekki tilmælum

Hátt í þrjátíu manns voru í kirkjunni þegar lögreglu bar að garði nótt. Hafði hópurinn myndað hring í kringum altarið. „Lögreglan kom, við fengum að útskýra hvers vegna við værum þarna. Þeir útskýrðu að þeir væru komnir þangað til að framfylgja þessum tiltekna úrskurði og því yrði ekki breytt. Svo voru þeir leiddir út, eða, dregnir út kirkjugólfið,“ segir Kristín Þórunn.

Hún segir að þessi þróun mála hafi ekki komið á óvart en mörg þeirra sem þarna voru samankomin hafi verið mjög slegin og miður sín að sjá ungu mennina tekna með valdi frá altarinu og út í lögreglubíla. „Lögreglan hefur sitt verklag. Þegar fólk hlýðir ekki tilmælum grípa þeir til sinna ráða. Auðvitað börðust þeir um,“ segir Kristín Þórunn.

„Markmiðið með þessu er að fá umræðu og vekja til umhugsunar um að breyta verklaginu og framkvæmd þessara laga. Það eru ábyrgðarmenn í málum útlendinga sem eru viðmælendurnir, ekki endilega lögreglan sem er bara að vinna sína vinnu. Þó að það megi auðvitað ræða verklag hennar,“ segir hún.

Mennirnir voru fluttir út úr kirkjunni á sjötta tímanum.
Mennirnir voru fluttir út úr kirkjunni á sjötta tímanum. Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir

Þegar fólk þurfti skjól frá valdhöfum

Hópurinn sem kom saman í kirkjunni í nótt stóð saman af fólki úr söfnuðinum, fólki úr samtökunum No Borders og nokkrum vinum ungu mannanna en einn af þeim síðastnefndu verður fluttur úr landi eftir tvo daga.

„Við höfum verið að taka þátt í starfi með og fyrir hælisleitendur í nokkurn tíma í samstarfi við prest innflytjenda, Toshiki Toma. Við höfum haft vikulegar guðsþjónustur og samverustundir þar sem hælisleitendur koma í Laugarneskirkju. Þar af leiðandi höfum við kynnst einstaklingunum, heyrt þeirra sögu og líka svolítið ferlinu sem þeir fara í gegnum þegar þeir lenda hérna,“ segir Kristín Þórunn.

„Við og fleiri höfum verið hugsi yfir leiðum, aðferðum og stemmningunni sem ríkir hjá yfirvöldum í málefnum útlendinga gagnvart þessum hópi. Þá kom upp í samtali þessi hugmynd um kirkjugrið sem var „praktíseruð“ fyrr á öldum. Það vísar til þess að þá voru ákveðnir staðir, helgir staðir og kirkjur, sérstaklega teknir frá fyrir fólk sem þurfti að leita skjóls fyrir valdhöfum,“ segir hún.

Kristín Þórunn útskýrir að kirkjugrið eigi sér ekki stoð í lögum og reglum hér á landi. „Hugmyndin þekkist þó alveg. Við erum með heimilin okkar sem eru friðhelg og sendiráðin, þar gilda aðrar reglur. Þrátt fyrir það vildum við láta reyna á það hvernig þessu yrði mætt. Líka sjá hvort hugmyndina um kirkjugriðin væri hægt að nota til að knýja á um nýtt hugarfar og breytt vinnulag í málefnum hælisleitenda á Íslandi. Þess vegna vildum við opna kirkjuna í nótt og buðum Ali og Majeh þangað,“ segir hún.

Meta S-Írak sem öruggt svæði

Mennirnir eru nú á leið til Noregs með flugi.

„Málið er að það sem við viljum benda á, að Noregur hefur sent flóttamenn þrátt fyrir alþjóðasamninga aftur til suðurhluta Íraks sem þeir skilgreina sem öruggt svæði. En það er eiginlega mjög auðvelt að færa rök fyrir því að það eigi engan veginn við,“ segir hún.  

„Mótmælin eru kannski sú að við viljum hvetja íslensk yfirvöld í málefnum útlendinga að skoða efnislega mál þessara einstaklinga sem eru hérna að leita eftir alþjóðlegri vernd í staðinn fyrir að senda þá burt á færibandi,“ segir Kristín Þórunn að lokum.

Hér má sjá umfjöllun á Vísindavefnum um kirkjugrið

Uppfært kl. 11.05

Stjórn Siðmenntar hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hún lýsir yfir stuðningi við aðgerðir prestanna Kristínar Þórunnar Tómasdóttur og Toshiki Toma í þágu flóttamanna.

„Þau hafa opnað kirkju sína fyrir flóttamönnum sem bíða brottvísunar, í krafti fornrar hefðar fyrir kirkjugriðum, sem Útlendingastofnun hafði að engu,“ segir í tilkynningunni. 

„Siðmennt tekur undir gagnrýni þeirra á að Útlendingastofnun beiti harkalegum aðgerðum við brottvísun flóttamanna, í stað þess að láta mannúðarsjónarmið ráða ferðinni.

Margoft hefur verið bent á að heimildir séu fyrir annarri nálgun við úrvinnslu mála hjá stofnuninni bæði við afgreiðslu mála þeirra en einnig við sjálfa útvísun þeirra. Svo virðist sem meðferð mála hjá Útlendingastofnun byggi á þröngri túlkun þess lagaramma sem stuðst er við. Siðmennt hvetur stjórnvöld að styðjast við mannúðarsjónarmið og mannréttindi þeirra sem hlut eiga að máli.“

Ljósmynd/Ekki fleiri brottvísanir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert