Ekki vitað hve margir fengu miða

Íslenska landsliðið fagnar sigrinum í gær með stuðningsmönnum.
Íslenska landsliðið fagnar sigrinum í gær með stuðningsmönnum. AFP

Ekki er vitað fyrir víst hversu margir Íslendingar verða á leik íslenska landsliðsins gegn því franska á Stade de France, þjóðarleikvangi þeirra Frakka, í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í knattspyrnu á sunnudaginn.

Leikvangurinn tekur rúmlega 81 þúsund manns í sæti.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við mbl.is að miðasalan, sem fram fór í dag, hafi gengið betur en gert hafði verið ráð fyrir.

Opin miðasala, sem allir gátu tekið þátt í, hófst í hádeginu og lauk stuttu síðar, enda var ásóknin mikil og seldust miðarnir fljótt upp.

Þeir sem keypt höfðu miða á fyrri leiki Íslands á mótinu fengu hins vegar tölvupóst frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, þar sem þeim bauðst að kaupa miða á Frakklandsleikinn. Er ljóst að þó nokkur fjöldi Íslendinga fékk miða á leikinn með þeim hætti.

Engar staðfestar upplýsingar hafa hins vegar borist frá UEFA, sem sér alfarið um miðasölu á leiki mótsins, um hversu marga miða Íslendingar hafa fengið á leikinn. Þykir ljóst að ekki fengu allir miða sem vildu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert