Nokkur erill hjá lögreglu

Fagnaðarlætin héldu áfram fram eftir kvöldi um götur borgarinnar.
Fagnaðarlætin héldu áfram fram eftir kvöldi um götur borgarinnar. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu í gærkvöld en hún sinnti um 50 verkefnum í miðborginni. Þar var margt um manninn eftir að Íslendingar báru sigur af hólmi gegn Englendingum á Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum mótsins.

Þúsundir komu saman og fylgdust með leiknum á Arnarhóli en að leik loknum skapaðist gríðarleg stemmning í miðborginni, fólk hópaðist saman, söng og trallaði um götur bæjarins en veitinga- og skemmtistaðir voru einnig þétt setnir miðað við mánudagskvöld.

Jóhann Karl Þóris­son hjá lögreglunni við Hverfisgötu segir í samtali við mbl.is að þótt talsverður erill hafi verið hjá lögreglu hafi fagnaðarlætin farið nokkuð vel fram en flest tilfellanna 50 voru minni háttar afskipti vegna ölvunar.

Veitinga- og skemmtistaðir hafa flestir leyfi til sölu vínveitinga eigi lengur en til klukkan eitt á virkum kvöldum en að sögn lögreglu virðist sem sú regla hafi verið virt í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert