Feðgar föðmuðust

Benedikt Atli Jónsson er einn þeirra 2.108 nemenda sem brautskráðust frá Háskóla Íslands um helgina. Eftir að hafa tekið í hönd yfir 1.800 útskriftarnema við athöfnina, gafst Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, tækifæri til að breyta handatakinu í faðmlag þegar röðin kom að Benedikt, en þeir Benedikt Atli og Jón Atli eru nefnilega feðgar.

Benedikt hafði þegar lokið gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði en bætti svo við sig tölvunarfræði og tók við prófskírteininu á laugardag. Jón Atli er einnig menntaður rafmagns- og tölvuverkfræðingur en nú hefur Benedikt tölvunarfræðina fram yfir föður sinn.

Jón Atli segir það hafa verið frábært að útskrifa alla þá nemendur sem brautskráðust um helgina og ekki síður einhvern sem hann hafi fylgst með frá upphafi. Jón Atli segir athöfnina hafa verið virkilega vel heppnaða og skemmtilega en honum þykir ekki síður gaman að sjá á samfélagsmiðlum allar myndirnar af útskriftarnemum með prófskírteinin.

„Hún var bara mjög góð sko,“ segir Benedikt Atli um tilfinninguna við að vera ánægður með þetta. „Ég er ekki alveg viss núna en það kemur í ljós,“ segir Benedikt um hvað tekur við hjá honum að útskrift lokinni. Hann starfar í sumar hjá Íslenskri erfðagreiningu en á eftir að taka endanlega ákvörðun um hvort hann haldi áfram í námi í haust.

Frétt mbl.is: Samtals 2.108 útskrifaðir í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert