Geðveikt bingó

Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss
Geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Á vordögum stofnuðu nemendur í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands, félagið Hugrúnu, sem hyggst standa fyrir fræðslu í menntaskólum landsins um andlega heilsu og geðræn málefni. 

„Markmiðið er bæði að minnka fordóma ungmenna gagnvart geðsjúkdómum og eins að hjálpa þeim að stuðla að eigin andlegri heilsu,“ segir Steinn Thoroddsen Halldórsson, formaður Hugrúnar, í samtali við mbl.is.

Læknanemar hafa um árabil staðið fyrir sambærilegu verkefni í framhaldsskólum sem ber nafnið Ástráður og stendur að fræðslu nemenda um kynheilbrigði, kynsjúkdóma og getnaðarvarnir. Ástráður hefur gefist vel og er að mörgu leyti fyrirmynd Hugrúnar að sögn Steins.

Steinn segir viðbrögðin ekki hafa látið á sér standa og tugir nemenda hafi þegar sýnt því áhuga að taka þátt í verkefninu og framhaldsskólarnir verið jákvæðir sömuleiðis. „Til að byrja með stefnum við á að fara í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu en vonin er að þetta verkefni geti þróast á næstu árum og við náum víðar en bara höfuðborgarsvæðið,“ segir Steinn.

Miðvikudaginn næstkomandi stendur Hugrún fyrir „geðveiku bingói“ á Stúdentakjallaranum, en markmiðið með bingóinu er bæði að afla fjár og vekja athygli á félaginu. Það er starfshópur um fjármögnun félagsins sem skipuleggur bingóið en hópurinn er nú einnig í óða önn að sækja um styrki fyrir verkefnið.

Grínistinn Þorsteinn Guðmundsson verður kynnir kvöldsins og eru tugir vinninga í boði, meðal annars hótelgisting og ferðir út á land. Spjaldið mun kosta 1.000 krónur en þrjú spjöld verða á 2.000 krónur og allur ágóði mun renna til forvarnastarfsins. Vænta má þess að hér sé á ferðinni „geðveikt skemmtilegt“ bingó.

Stjórn Hugrúnar. Efri röð f.v: Ágúst Ingi Guðnason, Jóhanna Andrésdóttir, …
Stjórn Hugrúnar. Efri röð f.v: Ágúst Ingi Guðnason, Jóhanna Andrésdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Erna Hinriksdóttir og Steinn Thoroddsen Halldórsson. Neðri röð f.v: Elín Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Auður Gróa Valdimarsdóttir. Á myndina vantar Elísabetu Brynjarsdóttur. /Hugrún
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert